Börn og ungmenni - Hvert get ég leitað?
Ef þú heldur að þú sért að lenda í einelti, eða að einhver sem þú þekkir sé lagður í einelti getur þú fengið aðstoð. Hér fyrir neðan sérðu hverja er m.a. hægt að ræða við. Það er alltaf í lagi að hafa samband og biðja um aðstoð, sama hvort þér finnst málið vera alvarlegt eða ekki.
Foreldrar, systkini, afar, ömmur, frænkur, frændur, vinir foreldra og aðrir fullorðnir vita oft hvað er gott að gera og geta hjálpað manni að takast á við eineltið eða láta vita af því. Talaðu við þann sem þér finnst best að treysta.
Kennarar, námsráðgjafi, deildarstjóri, skólahjúkrunarfræðingur, skólastjóri, skólaliði og annað starfsfólk skóla getur aðstoðað þig ef þú ert í vanda. Talaðu við þann sem þér finnst best að treysta.
Hjálparsími og netspjall Rauða krossins er opið allan sólarhringinn og þar er hægt að tala við fólk sem er þjálfað í að ræða við þá sem líður illa. Ekki þarf að gefa upp nafn og fullur trúnaður ríkir (nema tilkynningaskylda samkvæmt barnaverndarlögum gildi).
Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum, er úrræði á vegum mennta- og barnamálaráðuneytis, til að aðstoða í eineltismálum í grunnskólum og framhaldsskólum. Ef skólanum tekst ekki að leysa vandann er hægt að biðja um aðstoð hjá fagráðinu.
Umboðsmaður barna vinnur að bættum hag barna. Eitt af hlutverkum embættisins er að leiðbeina um hvað lög og reglur í landinu segja um einelti.