Foreldrar - hvað get ég gert? 0-5 ára

Strax á fyrstu árum ævinnar byrja börn að prófa sig áfram í samskiptum og félagslegum tengingum. Á þessum tíma er lagður mjög mikilvægur grunnur að félagsfærni barna og nauðsynlegt er að muna að börn læra það sem fyrir þeim er haft. Þau sjá foreldra sína í daglegum samskiptum og spegla sig í foreldrum sínum.

Góð samskipti við það fagfólk sem sinnir börnunum skiptir miklu máli. Flestir skólar hafa stefnu og gildi sem lögð er áhersla á. Gott er að kynna sér þessa hluti og vera virkur á foreldrafundum og kynningum að opna á umræðu um velferð barna okkar.

Að geta sýnt vináttu, virðingu og jákvæð samskipti er grunnurinn að félagsfærni barna. Börn eru fljót að læra og fæðast fordómalaus, það að kenna umburðarlyndi og virðingu fyrir fjölbreytileikanum gefur þeim góðan grunn að samskiptum í framtíðinni.
 
Góð tengsl við foreldra jafnaldra skipta líka miklu máli því foreldrarnir sinna lykilhlutverki í þjálfun samskiptafærni og félagsþjálfun og bera þar fulla ábyrgð. Að skipuleggja tíma saman fyrir börn að hittast gefur foreldrum líka tækifæri á að spjalla og mynda tengsl. Á þessum aldri leika börn mikið undir eftirliti og því kjörið tækifæri fyrir foreldra að fylgjast með og leiðbeina börnum sínum í samskiptum. Það að skiptast á, hlusta á vini sína og biðjast afsökunar er ekki sjálfsagt hjá börnum á þessum aldri og því undir foreldrum komið að kenna það og þjálfa.

Nokkrir punktar:

• Myndaðu góð tengsl við barnið.
• Hlustaðu á barnið.
• Skipuleggðu gæðastundir eins og lestrarstund, gönguferðir eða sundferðir.
• Kynntu þér áhugamál barnsins.
• Eigðu góð samskipti við skólann.
• Eigðu góð samskipti við foreldra jafnaldra.
• Spjallaðu við vini barnsins.
• Skipuleggðu heimsóknir til að leika.