Fagfólk - forvarnir og viðbrögð
Verkferlar

Sérhverjum skóla er skylt að hafa virka eineltisáætlun. Því miður brennur það stundum við að mál eru komin á alvarlegan stað þegar gripið er til verkferla slíkrar áætlunar, t.d. vegna þess að foreldrar hika við að skilgreina vandann sem einelti, starfsfólk skóla telur málið ekki svo alvarlegt, verkferlar eru óskýrir og fleira í þeim dúr.

Mikilvægt er að hengja sig ekki í skilgreiningar og því mætti í raun líta á slíka áætlun sem samskiptaáætlun til að leggja áherslu á mikilvægi þess að vera ávallt á varðbergi þegar upp kemur grunur eða kvörtun um vanlíðan vegna samskipta. Mikilvægt er að skoða hvert mál, með það að markmiði að grípa inn í eftir þörfum. Ef ekkert er gert er líklegt að vandinn verði alvarlegri og þróist jafnvel út í einelti.  

Verkferlar þurfa að vera skýrir og gagnsæir og gott er að hafa þá einnig myndræna. Þannig aukast líkur á að hvert mál sé unnið af sanngirni og auðveldara er fyrir foreldra og nemendur að fylgjast með vinnslu mála. Mikilvægt er þó að hafa í huga að engin tvö mál eru alveg eins og því þarf ávallt að meta hvert mál fyrir sig og hvernig það er unnið.

Hér má sjá þætti sem er mikilvægt að huga að þegar slíkir verkferlar eru gerðir og er þeim skipt upp í óformlega vinnslu og formlega vinnslu. Mikilvægt er þó að hafa í huga að engin tvö mál eru alveg eins og því þarf ávallt að meta hvert mál fyrir sig og hvernig það er unnið.

Hér eru dæmi um myndræna framsetningu verkferla. Hafa ber í huga að myndræn framsetning er viðbót við þær upplýsingar sem er nauðsynlegt að hafa í áætlun hvers skóla fyrir sig og er aðeins sett fram til einföldunar á því hvernig ferlið gengur fyrir sig.

Óformleg vinnsla – ef upp kemur grunur en ekki búið að setja í formlegan farveg eða vinnslu:
  • Taka hvert mál til athugunar. Mjög oft fara vísbendingar framhjá fagfólki, þrátt fyrir bestu fyrirætlanir og oft kraumar eitthvað undir yfirborðinu meðal einstaklinganna eða hópsins í heild.
  • Fylgjast sérstaklega með samskiptum á milli viðkomandi aðila, og hópsins í heild, í kennslustund og utan hennar áður en ákvörðun um framhaldið er tekið. Hversu lengi er fylgst með áður en tekin er ákvörðun um framhaldið ræðst af alvarleika málsins. Mikilvægt er að vinna málið hratt en faglega.
  • Skoða þarf sérstaklega hvernig rafrænum samskiptum er háttað, bæði á milli viðkomandi aðila sem og hópsins í heild. Það fer gjarnan framhjá fullorðnum en getur haft mikil neikvæð áhrif á samskipti.
  • Ræða óformlega við nemendur (án þess að nefna orðið einelti eða ákveðna aðila/aðstæður/samskipti), bæði þá nemendur sem um ræðir og aðra í hópnum.
  • Ræða óformlega við foreldra þeirra sem við á (án þess að nefna orðið einelti).
  • Skoða samskipti í hópnum heildrænt.
  • Leggja fyrir tengslakönnun.
  • Ráðfæra sig við aðra fagaðila, t.d. innan stigs eða teymis, deildarstjóra, samskipti/eineltisteymi o.s.frv.
  • Halda skráningu yfir það sem er gert.
  • Taka ákvörðun um framhaldið:
  1. Málið metið einfalt í vinnslu og/eða liggur ljóst fyrir -> Vinna með samskipti og líðan eftir því sem þurfa þykir, einstaklinga sem og hópinn. Upplýsa foreldra eftir því sem við á.
  2. Málið metið flóknara og/eða liggur ekki ljóst fyrir -> Setja málið í formlega vinnslu, í samráði við foreldra viðkomandi nemanda og nemandann sjálfan.
Formleg vinnsla – þegar formleg tilkynning kemur inn og/eða ákvörðun tekin um formlega vinnslu-Mikilvægt óháð þrepi
  • Hafa skýrt hverjir sitja í teymi sem tekur mál í formlega vinnslu.
  • Halda skráningu yfir allt sem gert er.
  • Hafa gátlista sem hægt er að fylgja.
  • Hafa mjög skýrt hver er ábyrgðaraðili yfir málinu og hverju verki fyrir sig, t.d. halda utan um skráningar, samskipti við foreldra o.þ.h.
  • Hafa skýra tímalínu á hverju þrepi fyrir sig, sérstaklega er mikilvægt að hafa hámarkstíma á könnunarþrepi. Upplýsa foreldra um tímalínu og ef fyrirséð er að hún breytist. Mikilvægt er að vinna málið hratt en faglega.
  • Upplýsa nemendur og foreldra reglulega.
  • Hafa samráð við nemendur, bæði þá sem myndu flokkast sem meintir “þolendur” og meintir “gerendur”.
  • Hafa samráð við foreldra, bæði “þolenda” og “gerenda.”
  • Upplýsa starfsfólk skólans, áhersla á að fylgjast með, safna upplýsingum og grípa inn í ef þurfa þykir.
  • Mikilvægt er að hengja sig ekki í skilgreiningar heldur einblína á að leysa málið með hag og líðan nemenda að leiðarljósi.

Könnunarþrep

  • Öll mál tekin til athugunar, þrátt fyrir að þau líti ekki út fyrir að vera alvarleg. Það er mjög oft sem eitthvað fer framhjá fagfólki þrátt fyrir bestu fyrirætlanir og mjög oft kraumar eitthvað undir yfirborðinu.
  • Skoða þarf sérstaklega hvernig rafrænum samskiptum er háttað, bæði á milli viðkomandi aðila sem og hópsins í heild. Það fer gjarnan framhjá fullorðnum en getur haft mikil neikvæð áhrif á samskipti.
  • Upplýsa foreldra málsaðila og boða á fund eins fljótt og auðið er. Athugið að í einstaka tilvikum getur verið nauðsynlegt að fagfólk geti fylgst með samskiptum í 1-2 daga áður en foreldrar/viðkomandi nemendur eru upplýstir, til að koma í veg fyrir að nemendur setji upp sparihegðun rétt á meðan verið er að kanna málið, með því skilyrði að öryggi sé að sjálfsögðu tryggt og gripið inn í ef þarf.
  • Ræða við málsaðila, einstaklingslega.
  • Ræða við samnemendur ef það er metið hjálplegt, einstaklingslega.
  • Skoða málið heildrænt, meta skólabraginn og menninguna í kringum málsaðila.
  • Skoða félagslega stöðu allra málsaðila, meintra “gerenda” sem og “þolenda”.
  • Leggja tengslakönnun fyrir hópinn.
  • Koma strax í veg fyrir þætti sem hægt er að stoppa eins og t.d. áreiti í frímínútum, búningsklefa o.fl.
  • Senda strax skýr skilaboð um að óæskileg hegðun sé ekki liðin.

Lausnaþrep/aðgerðaáætlun

  • Hafa samráð við foreldra og nemendurna sjálfa varðandi mögulegar lausnir.
  • Leggja áherslu á að allir aðilar fái tækifæri til að taka ábyrgð á eigin hegðun og komast frá málinu með reisn.
  • Vinna með skólabraginn og menninguna í kringum einstaklingana.
  • Finna viðeigandi leiðir og úrræði til að vinna með líðan og hegðun málsaðila, óháð alvarleika málsins, hvort sem það er innan skólans eða utan, í samráði við foreldra og nemendurna sjálfa. Hugsa út fyrir kassann.
  • Þó vandi birtist að mestu utan skólans, t.d. með rafrænum hætti, þá er sá vandi nátengdur skólanum, ef um er að ræða skólafélaga. Því þurfa skólayfirvöld að vinna með foreldrum að slíkum vanda.
  • Muna að sama hvað vandinn heitir þarf að vinna með hann, vinna með samskipti og líðan eftir því sem þarf. Einstaklinga og hópinn í heild.

Eftirfylgd

  • Halda stöðufundi með málsaðilum og foreldrum með reglulegu millibili, þó að það virðist ganga vel. Mikilvægt er að sofna ekki á verðinum.
  • Taka mál aftur upp á lausnaþrep séu aðgerðir ekki að skila árangri.
  • Ákveða hversu lengi haft verður sérstakt aðhald og eftirfylgd áður en metið verður hvort óhætt sé að loka málinu.
  • Ákveða með hvaða hætti máli verður formlega lokað þegar ekki er þörf á frekari aðhaldi eða inngripi.