Samskipti á netinu

Hinn heilagi sannleikur?

Internetið er fullt af frábærum fróðleik og það er hægt að nota samfélagsmiðla á mjög skemmtilegan og uppbyggilegan máta. En því miður á það sér líka skuggahliðar, stór hluti þess sem fer þar fram er ekki réttur og því er mikilvægt að temja sér gagnrýna hugsun þegar maður umgengst internetið. Það þýðir að maður á ekki að trúa öllu sem þar fer fram, maður þarf að skoða og meta. 

Hvað er öðruvísi í gegnum skjáinn?

Samskipti í gegnum samfélagsmiðla eða netið eru að mörgu leyti öðruvísi heldur en samskipti augliti til auglitis. Þegar maður segir eitthvað við einhvern í eigin persónu þá sér maður strax hvernig hinn aðilinn bregst við, maður heyrir tóntegundina, sér svipbrigðin og aðra líkamstjáningu. Þegar maður á samskipti í gegnum netið þá sér maður ekki endilega þessi viðbrögð með eigin augum og því er auðveldara að gera þau mistök að segja eitthvað sem lætur hinum líða illa, af því maður þarf ekki að horfast í augu við afleiðingarnar, nema þegar um samskipti í raunheimum sé að ræða. Þess vegna er líklegra að maður segi eitthvað í gegnum netið sem við myndum aldrei segja augliti til auglitis.

Það gilda sömu reglur um samskipti á netinu og augliti til auglitis, þar sem maður þarf að taka ábyrgð á því sem maður segir eða gerir. Það sem maður segir eða gerir augliti til auglitis er yfirleitt eitthvað sem er bara á staðnum og svo búið, en þegar maður skrifar eða segir eitthvað yfir netið þá er möguleiki á því að það sé vistað eða deilt áfram og það sem fer einu sinni á netið verður alltaf til þar. Þó sumir miðlar auglýsi sig þannig að efnið eyðist, þá er það ekki svo.

Að vera maður sjálfur

Það er hægt að vera nafnlaus inn á mörgum forritum eða öppum. Það er líka hægt að gera “feik” aðgang og þykjast vera einhver annar en maður er. Því miður eru margir sem nýta sér þetta til að segja eða gera eitthvað neikvætt við aðra, eða koma einhverjum í vandræði með því að þykjast vera hann/hún. Það þarf samt að hafa í huga að það er hægt að rekja ip tölur og þess vegna er hægt að komast að því hver er á bak við nafnið/nafnleysið. Mundu líka að ef þú færð skilaboð sem koma þér á óvart, eitthvað sem þú hefðir aldrei trúað að viðkomandi myndi senda þér, þá gæti verið að einhver annar sé að villa á sér heimildir og reyna að búa til leiðindi á milli ykkar eða koma viðkomandi í vandræði. Þess vegna skaltu líka aldrei gefa einhverjum öðrum lykilorðin þín, til að koma í veg fyrir að einhver sendi eitthvað neikvætt í þínu nafni (nema foreldrum/forráðamönnum).

Það er mjög mikilvægt að gefa aldrei upplýsingar um þig til einhverra sem þú þekkir ekki utan netsins. Sumir þykjast vera aðrir en þeir eru. Aldrei hitta neinn sem þú kynnist á netinu án samráðs við foreldra þína/forráðamenn.

Viðbrögð við vanda

Mundu að það er mikilvægt að láta fullorðinn vita ef þú eða einhver annar verður fyrir áreiti í gegnum samfélagsmiðla eða netið. Jafn mikilvægt og þegar maður verður fyrir áreiti í eigin persónu. Stundum getur verið gott að slökkva á miðlunum eða jafnvel “blocka” þann sem áreitir, en það er samt mikilvægt að láta fullorðinn vita og fá aðstoð við að takast á við vandann. Það er líka hægt að taka þá ákvörðun að sleppa því að vera á samfélagsmiðlum. Þó að það séu “allir” þarna þá þarft þú þess ekki endilega, sérstaklega ef það lætur þér líða illa. Það getur komið í veg fyrir mörg vandamál.

Nokkur atriði sem er gott að hafa í huga: 

  • Maður þarf að taka ábyrgð á því sem maður segir og gerir, líka á netinu.
  • Það sem þú segir, skrifar eða tekur upp fer ekki og getur jafnvel verið notað gegn þér síðar.
  • Áður en þú skrifar skaltu hugsa hvort þú myndir segja þetta við viðkomandi augliti til auglitis.
  • Áður en þú sendir myndir eða upptökur skaltu hugsa hvort efnið komi þér eða öðrum illa.
  • Verði þér á mistök þarf að leiðrétta þau með afsökunarbeiðni eins og í “hefðbundnum” samskiptum.
  • Sumir senda skilaboð í nafni annarra í þeim tilgangi að stofna til leiðinda, hafðu það í huga fáir þú eitthvað sent sem kemur þér verulega á óvart.
  • Mundu að þó þú reynir að vera nafnlaus á netinu þá er hægt að rekja ip tölur.
  • Ekki gefa neinum lykilorðin þín, nema foreldrum.
  • Aldrei hitta neinn sem þú kynnist á netinu nema með samþykki foreldra/forráðamanna þinna.