Samstarf foreldra og fagfólks

Samstarf heimilis og skóla er mjög stór þáttur í skólastarfinu og lykillinn að góðri líðan barna. Með því að vinna með skólanum, þegar upp koma agamál, samskiptavandi eða annað, finnur barnið fyrir því að skóli og heimili vinna saman og veitir það aukið aðhald. Slíkt samstarf getur verið fyrirbyggjandi fyrir slæma hegðun. Því er mikilvægt að stuðla að góðum tengslum strax frá upphafi svo samvinna heimilis og skóla gangi betur þegar á reynir. Þessi mikilvægu samskipti heimilis og skóla eru lykillinn að góðri líðan barna og hafa mikið forvarnargildi. Ábyrgðin er bæði foreldra og fagfólksins að láta samskiptin ganga vel enda hafa báðir hópar hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Mikilvægt er að hafa í huga að börn læra það sem fyrir þeim er haft. Heyri börnin neikvæða umræðu um skóla, stjórnendur, kennara eða aðra er líklegt að þau komi með þessi viðhorf í skólann. Skólinn er vinnustaður barnsins og því mjög mikilvægt að barninu líði þar vel og að traust sé milli þess og starfsfólks. Foreldrar geta hæglega grafið undan því trausti og búið til vanlíðan með því að láta börnin heyra neikvæðar raddir. Ef eitthvað kemur upp er mikilvægt að ræða það við rétta aðila og leysa málið innan skólans. Hins vegar má byggja upp mikið traust og vellíðan barna með því að tala jákvætt um skólann og skólastarfið og leyfa barninu að finna að góð samskipti og samvinna ríki milli heimilis og skóla.

Samfélagsmiðlar geta verið góður vettvangur fyrir foreldra að tengjast og skipuleggja skemmtilega hluti með börnunum. Því miður hefur það hins vegar gerst að umræðan þar fari að snúast um neikvæða hluti þar sem baktal og ósætti fá að viðgangast. Nauðsynlegt er að koma upplýsingum um það sem betur mætti fara inn í skólann í hendur réttra aðila. Ef nýta á samfélagsmiðla þar sem foreldra eiga samtal er mjög mikilvægt að tilgangur síðunnar sé alveg skýr.

Gagnkvæm virðing og virk hlustun er mikilvæg í öllum samskiptum og nauðsynlegt að hafa það í huga í samskiptum við skóla. Það að gera kennara barnsins þíns að bandamanni þínum gerir ykkur kleift að vinna saman að skólagöngu barnsins. Það er sérstaklega mikilvægt ef um er að ræða samskiptavanda eða einelti, því þar er gríðarlega mikilvægt að heimili og skóli taki höndum saman ef vel á að vera. Starfsmenn skóla bera ábyrgð á að grípa inn í og vinna með vandann á vettvangi skólans á meðan foreldrar bera ábyrgð á viðhorfum barnsins síns, hegðun þess og líðan.

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

 • Talaðu strax við umsjónarkennarann ef eitthvað kemur upp.
 • Haltu umsjónarkennaranum vel upplýstum um líðan barnsins og aðstæður í nærumhverfi sem líklegt er að hafi áhrif á líðan barnsins.
 • Ef um mikinn vanda er að ræða getur verið gott að biðja um að sett sé saman teymi og halda reglulega fundi.
 • Fáðu námsráðgjafa inn í málið, bæði til að koma með tillögur en eins til ráðgjafar við barnið.
 • Haltu barninu upplýstu um vinnuna sem er í gangi svo það upplifi að á það sé hlustað.
 • Mundu að starfsmenn geta ekki tjáð sig um málefni annarra barna. Temdu þér að leggja áherslu á óskir gagnvart þínu eigin barni, fremur en annarra.
 • Endið fundi með því að fara yfir markmiðin fyrir næstu daga/vikur og bóka næsta fund.
 • Ef samskipti við umsjónarkennara ganga illa getur verið nauðsynlegt að tala við deildarstjóra, aðstoðarskólastjóra eða skólastjóra.
 • Taka vel við ábendingum frá skóla – það er hlutverk skólans að upplýsa foreldra og það þýðir að skólinn virðir þitt hlutverk sem uppalandi.
 • Hafa í huga að skólinn er bundinn þagnarskyldu gagnvart öðrum börnum en ber líka að þjónusta þau eins og þitt barn.
 • Vera opinn fyrir því að barnið þitt sýnir mögulega aðra hegðun í skóla en það gerir heima.
 • Standa með barninu sínu í leit að lausnum og vera raunsær á að börn ganga í gegnum margvísleg þroskaferli og þurfa því stuðning og aðstoð þegar eitthvað fer úrskeiðis.