Það er mikilvægt að vera meðvitaður um félagsstöðu barnsins síns og samskipti þess við önnur börn og ræða reglulega við það um daglegar athafnir og líðan. Með því er líklegra að þú verðir fyrr var við ef breytingar verða eða upp komi vísbendingar um vanlíðan. Ef þú tekur eftir breytingu í hegðun eða líðan barnsins þíns varðandi skóla, tómstundir eða annan vettvang er mikilvægt að hafa í huga hvort um einelti geti verið að ræða.

Það eru ýmsar vísbendingar sem geta gefið til kynna að svo sé; t.d. að barnið neiti að fara í skólann/æfingu, fær magaverk, höfuðverk eða aðra líkamlega kvilla sem tengjast skóla/æfingatíma, hættir að fara út að leika, einangrar sig, verður uppstökkt við lítið tilefni, á erfitt með svefn, matarvenjur breytast, er ekki í samskiptum við skólafélaga utan skóla o.s.frv. Athugið þó að ofangreind einkenni geta stafað af ýmsum öðrum ástæðum.

Það er ekki alltaf augljóst hvort um einelti sé að ræða þegar upp kemur samskiptavandi, en mikilvægt er að muna að hvað sem vandinn heitir þarf að fylgjast með og grípa inn í ef ástæða er til, hvort sem barnið þitt er að verða fyrir áreitni/lenda í einelti, áreita aðra/leggja í einelti eða vera vitni að áreitni/einelti.

Ef þig grunar að samskiptavandi eða einelti sé í gangi í hóp barnsins þíns, hvetjum við þig til að skoða þennan kafla