Mikilvægt að hafa í huga

Þegar maður er í hópi er ekki endilega víst að manni líki sérstaklega vel við alla eða finnist allir jafn skemmtilegir. En það er samt mikilvægt að koma vel fram við alla, sama hvort þeir eru „bestu“ vinir manns eða ekki.

Það skiptir máli að allir hafi jöfn tækifæri til að vera með og eignast vini og enginn upplifi sig vera útundan. Framkoma hvers og eins í hópnum hefur áhrif á hvernig menning skapast og eftir því sem fleiri í hópnum koma vel fram hver við annan minnka líkur á alvarlegum samskiptavanda.

Því meiri virðingu og tillitsemi sem þú sýnir öðrum, því líklegra er að aðrir beri virðingu fyrir þér og taki tillit til þín. Þetta á líka við á netinu. Það sama gildir um traust og trúnað. Reglan komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig á vel við.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

  • Vertu vinalegur við alla. Þó maður eigi einhvern „besta vin“ er mikilvægt að æfa sig í að geta leikið við eða unnið með öllum. Ef vinur þinn veikist eða flytur er gott að vera búin/n að kynnast fleirum í hópnum.
  • Vertu ófeimin/n að biðja aðra um að leika eða hittast, eða jafnvel bjóða heim til þín.
  • Ef það er ekki pláss fyrir alla á því heimili þar sem á að vera saman, finnið þá annan stað þar sem er pláss fyrir alla, eða leikið úti.
  • Vertu opin/n fyrir því sem aðrir vilja gera og skiptast á. Stundum þarf maður að gera það sem hinir vilja, ekki bara það sem maður vill sjálfur.
  • Bjóddu alla velkomna með í hópleiki, sérstaklega þá sem virðast vera einmana eða útundan.
  • Taktu vel á móti nýjum bekkjarfélögum og leggðu þig fram um að þeir fái að kynnast hópnum.
  • Talaðu vel um aðra í hópnum. Ef þú verður var/vör við baktal, ekki taka þátt í því.
  • Taktu virkan þátt í félagslífi skólans og leggðu þig fram um að búa til jákvæðan skólabrag með því að sýna virðingu og hafa jákvæðni að leiðarljósi.

Í skólum er starfrækt nemendaráð og skólaráð. Ef þú situr í slíku ráði getur þú lagt þig fram um að taka virkan þátt í að móta stefnu skólans í eineltismálum. Nemendaráð ætti að vera virkt í þeirri vinnu að styrkja skólabraginn og leggja áherslu á að forsenda þess að einelti þrífist ekki er sú að öllum líði vel í skólanum.