Er ég að leggja í einelti?

Stríðni eða einelti?

Það er mjög algengt að börn stríði hvert öðru eða geri grín.  Við erum öll misjöfn, sumir eiga auðvelt með að taka stríðni og á meðan öðrum líður strax illa sé einhver að stríða eða gera grín að viðkomandi.  

Stundum finnst manni gaman að stríða, og stundum finnst þeim sem maður er að stríða það líka skemmtilegt. En stundum finnst manni gaman að stríða, þó að þeim sem maður stríði finnist það ekki skemmtilegt. Stundum er bara svo erfitt að hætta, þó maður sjái eftir því og líði illa með það.  

Það er mikilvægt að hafa í huga að ef maður er að stríða eða gera grín að einhverjum, þá þarf hinum líka að finnast það skemmtilegt. Stundum viðurkennir hinn ekki að honum/henni líði illa með stríðnina og þess vegna er ennþá mikilvægara að hafa þetta í huga. 

Það er líka misjafnt hvað manni líkar vel við aðra. Maður “fílar” suma vel á meðan manni finnst aðrir frekar glataðir, suma öfundar maður og aðra á maður erfitt með að þola.  

Stundum, þegar maður finnur einhverjar neikvæðar tilfinningar í garð einhvers annars, þá lætur maður það í ljós með einhverjum hætti. Maður segir t.d. eitthvað neikvætt við eða um viðkomandi, lætur sem maður heyri ekki þegar hann/hún er að tala eða gerir eitthvað til að láta viðkomandi finna að hann/hún sé ekki eins merkileg eða merkilegur og maður sjálfur.  

Oftast sér maður eftir þessu og reynir að hætta. Stundum tekst það fljótt en stundum tekst það illa. Stundum er maður ekki endilega búinn að fatta það sjálfur hvernig maður kemur fram, en aðrir segja að maður sé að leggja í einelti.  

Allir geta gert mistök

Það sem er mikilvægt að muna er að allir gera mistök. Sumir gera sömu mistökin oftar en einu sinni, sumir eru fljótir að læra af mistökunum og aðrir eru lengur að læra af þeim. Sá sem leggur í einelti er ekki vondur eða illa innrættur, heldur einhver sem gerir mistök og þarf aðstoð við að breyta hegðun sinni. Stundum leggur maður aðra í einelti af því maður hefur sjálfur verið lagður í einelti, eða maður er hræddur um að vera lagður í einelti. Stundum leggur maður aðra í einelti af því manni líður eitthvað illa og stundum er engin sérstök ástæða. Sá sem gerir þau mistök að leggja aðra í einelti sýnir mikið hugrekki að tala við einhvern og viðurkenna að hann/hún þurfi aðstoð við að hætta.  

Ef þú heldur að þú sért að leggja einhvern í einelti, sért þátttakandi, eða lendir oft í samskiptavanda, talaðu við einhvern fullorðinn sem þú treystir og fáðu aðstoð við að laga mistökin! 

Smelltu á hnappinn hér að neðan til að fá upplýsingar um þá aðila sem þú getur leitað til.

Hvernig lítur einelti út?

Það er mjög misjafnt hvernig einelti lítur út, en ef þú ert ein/einn af þeim sem gera stundum þau mistök að koma fram við einhvern á eftirfarandi hátt og gerir það oft ert þú mögulega að leggja í einelti. Þá er mikilvægt að ræða við einhvern fullorðinn og fáir aðstoð.  

  • Þú gerir grín að sama aðilanum, niðurlægir hann, kallar hann ljótum nöfnum og fleira í þeim dúr, eða tekur þátt í því með einhverjum öðrum. 
  • Þú ræðst að líkama einhvers, t.d. með því að sparka, lemja, klípa, fella eða annað slíkt, eða tekur þátt í því með einhverjum öðrum.
  • Þú gefur sama aðilanum einhvern svip, augngotur eða annað í þeim tilgangi að láta viðkomandi líða illa, eða tekur þátt í því með einhverjum öðrum. 
  • Þú skilur ákveðinn aðila útundan, hunsar viðkomandi þegar hann/hún talar, kemur í veg fyrir að hann/hún fái að sitja við sama borð, leyfir honum/henni ekki að vera með í samræðum og fleira, eða tekur þátt í því með einhverjum öðrum. Athugaðu samt að stundum vilja vinir vera í næði en ef það er þannig að flestir aðrir fá að vera með en þú færð yfirleitt ekki að vera hluti af hópnum þá er mögulega verið að leggja þig í einelti. 
  • Þér finnst skemmtilegt að láta ákveðnum aðila líða illa, reynir að gera eitthvað til að fá aðra til að hlæja að viðkomandi eða finnast hann/hún asnaleg/ur. Einnig ef þú tekur þátt í þessu með einhverjum öðrum. 
  • Þú býrð til kjaftasögur um einhvern, lýgur upp á viðkomandi einhverju sem lætur hann/hana líta illa út eða koma viðkomandi í vandræði, eða tekur þátt í því með einhverjum öðrum.
  • Þú skemmir hluti einhvers, felur þá, tekur þá af viðkomandi eða eitthvað þvíumlíkt eða tekur þátt í þessu með einhverjum.
  • Þú ógnar ákveðnum aðila, hvort sem er með orðum eða líkamlegum hætti og þú gerir það til að hræða viðkomandi eða láta honum/henni líða illa á annan hátt, eða tekur þátt í þessu með öðrum.
  • Þú bíður eftir ákveðnum aðila, t.d. í fataklefanum, úti í frímínútum, á leið í eða úr skóla í þeim tilgangi að gera eitthvað sem lætur honum/henni líða illa, eða tekur þátt í því með öðrum.

Athugaðu að það er hægt að áreita á fleiri vegu en stendur hér fyrir ofan og þetta gildir hvort sem um er að ræða áreiti á netinu eða í eigin persónu. 

Ef ég geri einu sinni er það þá einelti?

Það er ekki um einelti að ræða nema áreitið (það sem er gert til að láta einhverjum líða illa) gerist oft, en það skiptir ekki máli hvort það sé sama áreitið oft, eða mismunandi áreiti í hvert sinn. Stundum lenda börn nefnilega í samskiptavanda, þau rífast, einhver missir stjórn á skapinu sínu, gera grín hvert að öðru eða annað svipað, án þess að einhver sé að reyna að láta öðrum líða illa.  

Athugaðu samt að þó þetta sé ekki búið að gerast oft, þá er mjög gott að ræða strax við einhvern fullorðinn, sem getur fylgst með og hjálpað þér að átta þig á því hvað er að gerast. Það er líka mikilvægt að fá aðstoð áður en vandinn verður of stór, því þó það virki saklaust sem þú ert að gera, eða það hafi bara sjaldan gerst, getur það á stuttum tíma orðið alvarlegra og breyst í einelti. 

En ef ég byrjaði ekki?

Athugaðu líka að hér fyrir ofan stendur “eða tekur þátt í því með einhverjum öðrum”. Stundum er það nefnilega þannig að maður er þátttakandi þó maður byrji aldrei neitt sjálfur. Ef einhver er að leggja í einelti og maður tekur þátt þó maður byrji aldrei, þá er maður samt líka að leggja í einelti.