Réttindi mín

Á Íslandi gilda ákveðin lög og reglur sem allir þurfa að fara eftir. Stjórnarskrá Íslands er æðsta réttarheimildin sem þýðir að það má ekki setja neinar reglur eða lög sem mótmæla henni. Í stjórnarskránni, barnasáttmálanum og fleiri reglugerðum sem gilda á Íslandi er fjallað um rétt barna til að líða vel og hér fyrir neðan getur þú séð hvaða rétt þú átt samkvæmt lögum og í hvaða lögum þau réttindi eru.

Þú átt rétt á að fá þá vernd og umönnun sem þú þarft til að líða vel.

Þetta kemur fram í Stjórnarskránni, sem þýðir að þeir sem stjórna landinu þurfa að passa upp á, með lögum og reglum, að það sé komið vel fram við þig, þú sért vernduð/aður ef það er illa komið fram við þig og þú fáir þá umönnun sem þú þarft til að líða vel. Þannig er löggjafinn (þeir sem stjórna landinu) til dæmis skyldugur til að tryggja það að enginn þurfi að þola einelti eða slæma framkomu (3. mgr. 76. gr.).

Það sama kemur fram í Barnasáttmálanum. Þar kemur fram að allar ráðstafanir stjórnvalda (allt sem er ákveðið að gera) eiga að vera í samræmi við það sem er þér fyrir bestu og allir sem skrifa undir Barnasáttmálann eiga að tryggja þér þá vernd og umönnun sem þarf til að þér líði vel (3. gr.).

Á Íslandi eru líka Barnaverndarlög. Þar segir að allir sem annast þig, hvort sem það eru foreldrar, starfsmenn eða aðrir, eigi að sýna þér virðingu og umhyggju, gæta velferðar þinnar og sjá til þess að aðstæður séu viðunandi. Það þýðir að allir sem sjá um þig þurfa að grípa inn í ef þú ert í aðstæðum þar sem þér líður ekki vel.  

Umboðsmaður barna á Íslandi er aðili sem er ráðinn af ríkisstjórn Íslands til að passa upp á að allir sem vinna með börn fari eftir þeim lögum sem gilda og að það sé hugsað um þarfir og hagsmuni barna (það sem er mikilvægt fyrir börn). Það má því kannski segja að Umboðsmaður barna sé nokkurs konar „lögregla“ sem gætir þinna réttinda sem barns eða ungmennis.

Talað er um rétt barna til að líða vel í fleiri reglugerðum en allt þetta þýðir að hvar sem þú ert (heima, í skólanum, á íþróttaæfingum, tómstundum eða annars staðar) þá gilda mjög ákveðin lög um það að þú eigir rétt á því að líða vel, það megi ekki koma illa fram við þig og að þú þurfir að fá aðstoð ef það gerist. 

Þú átt rétt á að vera ólík/ólíkur öðrum.

Í Stjórnarskránni og Barnasáttmálanum stendur að öll mismunun sé bönnuð og það eigi að ríkja jafnræði. Það sama kemur líka fram í Mannréttindasáttmála Evrópu. (Stjórnarskrá 63., 64., 65. gr, – Barnasáttmáli 1. mgr. 14. gr. Mannréttindas. 9. gr. og 14. gr.).

Það þýðir t.d. að þú mátt hafa þínar eigin skoðanir, þú mátt trúa á það sem þú vilt trúa á, líta öðruvísi út, hugsa ólíkt, eiga ólíka/öðruvísi fjölskyldu en aðrir, klæða þig öðruvísi, hafa önnur áhugamál og fleira í þeim dúr, án þess að aðrir komi illa fram við þig vegna þess.  

Þú átt rétt á því að vera laus við líkamlegt, andlegt og félagslegt ofbeldi.

Tekið er mjög skýrt fram í Stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu að það megi ekki pynda neinn eða koma fram á ómannúðlegan eða vanvirðandi máta. Mannréttindadómstóllinn segir að pynding sé þegar einhver ætlar sér að valda líkamlegum og andlegum sársauka og að vanvirðandi meðferð sé þegar einhver ætlar sér að hræða annan, gera vanmáttugan eða niðurlægðan. Barnasáttmálinn segir að þau ríki sem fylgja honum þurfi að gera allt sem hægt er til að vernda börn gegn hvers konar ofbeldi og bjóða upp á þá þjónustu sem er nauðsynleg til að það sé hægt (mannréttindaskrá 3. gr. stjórnarskrá 68. gr. barnasáttmáli 19. gr.).

Í lögum um grunnskólalögum um framhaldsskóla og reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og framhaldsskólum er líka fjallað um þessi réttindi. Skólar eiga að hafa áætlun um hvernig þeir ætla að koma í veg fyrir líkamlegt, andlegt og félagslegt ofbeldi og einnig hvernig þeir ætla að bregðast við slíku. Þar segir líka að þeir sem vinna í skólum þurfi að taka afstöðu gegn hvers konar ofbeldi í skólanum en það þýðir að starfsmönnum má ekki finnast í lagi að einhver beiti ofbeldi. Það er meira að segja tekið fram að hver kennari beri ábyrgð að fylgja þessum áætlunum og að skólastjóri beri ábyrgð á að allir vinni eftir áætluninni með sama hætti (lög um grunnskóla 30. gr. – reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila … grunnsk. 3. gr. 7. gr., lög um framhaldsskóla 33. gr. reglugerð um ábyrgð … framhaldsskóla 9. gr.).

Aðalnámskrá í leikskólumgrunnskólum og framhaldsskólum hafa ígildi reglugerðar (það þýðir að það er skylt að fara eftir þeim) og þar er fjallað um mikilvægi þess að fyrirbyggja hvers konar ofbeldi, þar með talið einelti. Öllum sem starfa í skólum er skylt að fara eftir aðalnámskrá viðkomandi skólastigs og þar með þurfa þeir að passa upp á að þú verðir ekki fyrir ofbeldi (almennur hluti).

Á Íslandi gilda líka Barnalög. Þar er talað um að foreldrar eigi að gera allt sem þeir geta til að vernda börn sín gegn ofbeldi og vanvirðandi háttsemi en ef foreldrar gleyma að passa upp á velferð barna sinna þá eru þeir ekki að fylgja Barnaverndarlögum sem gilda á Íslandi (barnalög 28. gr., barnaverndarlög 2. mgr. 1 gr.). 

Þetta þýðir að allir fullorðnir, hvort sem það eru foreldrar, kennarar, íþróttaþjálfarar eða aðrir, eiga samkvæmt lögum að passa upp á að þú verðir ekki fyrir ofbeldi og ef að það gerist þá þarf að gera eitthvað til að stöðva það.

Þú átt rétt á að eiga einkalíf þitt og fjölskyldunnar út af fyrir þig.

Í StjórnarskráBarnasáttmála og Mannréttindasáttmála er talað um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu en það felur í sér vernd á einkalífi fólks. Þessi lög eiga meðal annars að vernda þig fyrir árásum á æru og mannorð (stjórnarskr. 71. gr., barnas. 16. gr. mannréttindas. 8. gr.).

Þetta þýðir til dæmis að það má ekki ljúga um þig eða fjölskyldu þína, segja öðrum frá einhverju um þig eða fjölskyldu þína sem þú vilt ekki að aðrir viti, eða reyna að láta öðrum líka illa við þig með einhverjum hætti. Þetta á bæði við í eigin persónu og á netinu. Athugaðu samt að barnaverndarlög segja að ef þú býrð við óviðunandi aðstæður, verður fyrir ofbeldi eða heilsa þín eða þroski er í hættu, hvort sem er vegna eigin hegðunar eða annarra, þá verður sá sem kemst að því að láta vita. (16. og 17. gr.).

Þú átt rétt á að tjá þig og segja það sem þér finnst, ef það kemur öðrum ekki illa.

Í StjórnarskránniBarnasáttmálanum og Mannréttindasáttmálanum segir að allir eigi rétt á því að segja hvað þeim finnst, það heitir tjáningarfrelsi. Þannig mátt þú segja þína skoðun, segja frá því sem þú veist og leita eftir þeim upplýsingum sem þig langar.

Öllum orðum fylgir samt ábyrgð og samkvæmt sömu lögum má takmarka tjáningarfrelsið ef það er nauðsynlegt til að vernda heilsu, réttindi og mannorð annarra. Þannig má t.d. enginn segja hvað sem er um þig, fjölskyldu þína, vini, útlit þitt o.s.frv. ef það veldur þér vanlíðan eða fær aðra upp á móti þér.

Þetta þýðir að þú átt rétt á að segja það sem þér finnst og langar að segja en ekki ef það er til þess að valda öðrum vanlíðan. Sömuleiðis hafa aðrir rétt á að hafa sína skoðun en ekki ef tilgangurinn er sá að valda þér vanlíðan.

Þú átt rétt á að fá að njóta skólagöngu þinnar.

Í lögum um grunnskólalögum um framhaldsskóla og  reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins segir að starfsfólk í skólum eigi stuðla að jákvæðum skólabrag, starfsanda og góðri umgengi. Samkvæmt lögum á starfsfólk að koma vel fram við nemendur, foreldra og samstarfsfólk og stjórnandi á að vinna markvisst að jákvæðum samskiptum og trausti í skólanum. Þegar skólabragur er góður ættirðu að upplifa öryggi,  vellíðan og vinnufrið (lög um grunnskóla 30. gr. reglugerð 3. gr., lög um framhaldsskóla 33. gr.b).

Barnasáttmálinn talar líka um þetta en þar segir að þegar kemur að menntun barna eigi að leggja áherslu á að rækta persónuleika, hæfileika og andlega, líkamlega getu barna og móta virðingu fyrir öðrum. Það þýðir að skólakerfið þarf að hafa þessa hluti í huga þegar nám og skóli er skipulagður (29. gr.).

Þetta þýðir að starfsfólk í skóla á að gera allt sem hægt er svo þér geti liðið vel í skólanum, upplifað þig örugga/öruggan og að þú fáir vinnufrið til að stunda nám þitt. 

Þú átt rétt á því að það sé passað upp á að skólinn fylgi öllum lögum og reglum.

Á Íslandi er sérstök reglugerð um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald. Þar segir að sveitarstjórnin (þeir sem stjórna borginni, bænum, þorpinu eða sveitinni þar sem þú býrð) eigi að fylgjast með að þeir sem stjórna og vinna í skólanum fari eftir öllum þeim reglum og lögum sem gilda, tryggja að réttindi þín séu virt og þú fáir þá þjónustu sem þú átt rétt á (2. gr.).

Þetta þýðir að ef stjórnendur grunnskólans passa ekki upp á réttindi þín þá á sveitarfélagið að grípa inn í og skoða málið. 

Tenglar og orðskýringar:

Stjórnarskrá Íslands er æðsta réttarheimildin á Íslandi sem þýðir að það má ekki setja neinar reglur eða lög sem mótmæla henni.
Barnasáttmálinn er sáttmáli (samningur) sem verndar réttindi barna sérstaklega. Á Alþingi er búið að lögfesta Barnasáttmálann, sem þýðir að það sem stendur í honum eru lög á Íslandi.
Barnaverndarlög eru lög um vernd barna á Íslandi.
Mannréttindasáttmáli Evrópu er samningur sem lönd í Evrópu hafa gert um réttindi fólks og Alþingi hefur sett sem lög á Íslandi.
Barnalög eru sérstök lög um réttindi barna á Íslandi.
Lög um grunnskóla snúast um hvernig grunnskólar á Íslandi eiga að vera skipulagðir, hvað starfsfólkið á að gera, hverju nemendur eiga rétt á og fleira í þeim dúr.
Lög um framhaldsskóla fjalla um hvernig framhaldsskólar á Íslandi eiga að vera skipulagðir, hvað starfsfólkið á að gera, hverju nemendur eiga rétt á og fleira í þeim dúr.
Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er reglugerð um hvaða skyldur og ábyrgð þeir hafa sem standa að grunnskólanum, það er skólastjórnendur, kennarar, starfsfólk, foreldrar og aðrir.
Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum er reglugerð um hvaða skyldur og ábyrgð þeir hafa sem standa að framhaldsskólanum, það er skólastjórnendur, kennarar, starfsólk, foreldrar og aðrir.
Reglugerð um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald fjallar um hvernig sveitastjórn þarf að fylgjast með því sem er að gerast í grunnskólanum.
Aðalnámskrá leikskólagrunnskóla og framhaldsskóla er rammi um skólastarfið á hverju skólastigi fyrir sig og leiðbeiningar um tilgang og markmið. Í námskránni er tekið saman hvernig á að fylgja því sem lögin segja að eigi að gera. Stjórnendur skóla, kennarar og annað starfsfólk vinnur eftir aðalnámskrá.
Mannréttindadómstóll er dómstóll sem hægt er að kæra til ef einhver brýtur Mannréttindasáttmálann.

Líkamlegt ofbeldi er t.d. þegar einhver sparkar, lemur, klípur eða meiðir líkama einhvers annars.
Andlegt ofbeldi er t.d. ef einhver segir eða gerir eitthvað í þeim tilgangi að hafa neikvæð áhrif á hvernig viðkomandi líður með sjálfan sig, svo sem með því að gera lítið úr viðkomandi, niðurlægja, hóta eða hræða.
Félagslegt ofbeldi er t.d. þegar einhver er skilinn útundan, ekki boðið að taka þátt í því sem hópurinn er að gera eða er útilokaður á einhvern annan hátt.
Orðið æra þýðir heiður eða mannorð einhvers, eða það hvernig annað fólk lítur á mann og það sem maður gerir.