Samstarf foreldra og fagfólks - Hlutverk innan skólanna - Grunnskólar

Umsjónarkennari er tengiliður heimilis og skóla og tengiliður nemenda sem og trúnaðarmaður nemenda. Hann sinnir einnig hlutverki upplýsingaaðila til bæði nemenda og foreldra en einnig eftirlitshlutverki með námi og líðan nemenda. Umsjónarkennari á að stuðla að góðum samskiptum milli heimilis og skóla og skal hann hafa vikulega viðtalstíma sem annaðhvort eru fastir í stundatöflu kennarans eða umsemjanlegir eftir því sem hentar, auk þess að vera foreldrum aðgengilegur í síma og tölvupósti þess á milli. Hafa ber þó í huga að kennarar eiga ekki að svara tölvupóstum meðan á kennslu stendur og því getur liðið einhver tími áður en tækifæri gefst að svara.

Námsráðgjafi er trúnaðarmaður nemenda og hann er bundinn þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem hann fær um málefni nemenda, nema tilkynningaskylda samkvæmt barnaverndarlögum segi til um annað. Námsráðgjafi getur verið mikilvægur hlekkur í vinnu með samskiptavanda þar sem hlutverk hans er meðal annars að standa vörð um velferð nemenda og veita ráðgjöf og stuðning. Að auki vinnur námsráðgjafi oft með nemendum með kvíða, streitu og reiðistjórnun ásamt öðrum vandamálum. Námsráðgjafi vinnur eftir siðareglum náms- og starfsráðgjafa.

Deildarstjóri hefur yfirumsjón með starfinu á tilteknu aldursbili. Deildarstjóri er næsti yfirmaður umsjónarkennara og vinnur oft náið með þeim í málum er varða líðan nemenda, aga og félagslega stöðu þeirra.

Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra og tekur þátt í að móta faglega forystu og menningu skólans. Hann vinnur oft náið með öðrum stjórnendum að skipulagningu skólastarfs.

Skólastjóri ber ábyrgð á öllu skólastarfi og skal veita skólanum faglega forystu. Skólastjórinn skapar menningu skólans og ber ábyrgð á því að skólinn starfi í samræmi við lög og reglugerðir.

Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins um skólahald. Það fjallar um starfsáætlun skólans, stundatöflur og skólanámskrá skólans sem og aðrar áætlanir. Skólaráð skal fylgjast almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda.

Nemendaverndarráð hefur það hlutverk að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs. Skólastjóri skipar í ráðið ár hvert og í því sitja skólahjúkrunarfræðingur, náms- og starfsráðgjafi, umsjónaraðili nemenda með sérþarfir, sérfræðingur frá sveitarfélaginu auk skólastjórans. Leita má til nemendaverndarráðsins ef nemandi fær ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika.

Fræðsluskrifstofa stýrir skólastarfinu í bænum og er fræðslustjóri eða annar starfsmaður þar næsti yfirmaður skólastjóra. Komi til vandamál sem skólinn hefur ekki náð að leysa og skólastjóri ekki samstarfsfús skal snúa sér til fræðsluskrifstofunnar.