Fyrsta aðstoð fyrir nemanda/foreldra - framhaldsskólinn

  1. Ef grunur leikur um einelti (eða annað ofbeldi) skalt þú eða foreldrar þínar tilkynna málið til umsjónarkennara, námsráðgjafa eða annarra sem þú treystir.
  2. Tilkynntu málið formlega til skólans á þar til gerðu eyðublaði. (Á heimasíðu margra skóla eru eyðublöð sem eru ætluð til þess að tilkynna einelti). Oftast er ferlið þannig að tilkynningu er komið til umsjónarkennara sem hefur samráð við skólameistara og námsráðgjafa.
  3. Umsjónarkennari lætur foreldra geranda og þolenda vita ef þeir eru ekki orðnir 18 ára.
  4. Farðu fram á að þú sért upplýstur um framvindu málsins (aðgerðaáætlanir skóla tilgreina þennan þátt oftast, en gott er að minna á það).
  5. Ef þú ert ekki viss hvort um einelti sé að ræða skaltu samt biðja um aðstoð. Ekki er nauðsynlegt að skilgreina vandann sem einelti og mikilvægt er að grípa inn í slæm samskipti, hvaða nafni sem við kjósum að kalla þau. Slæm samskipti geta stundum þróast yfir í einelti.
  6. Málið er unnið skv. aðgerðaáætlun skólans. Öllum framhaldsskólum ber að hafa aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri forvarnar- og viðbragðsáætlun (9. gr. rg. 326/2016.

Hér til fróðleiks má sjá dæmi um verkferla eineltisáætlunar en mikilvægt er að hafa í huga að engin tvö mál eru eins og því þarf alltaf að meta hvert mál fyrir sig og hvernig það er unnið.

Teljir þú þig ekki fá viðunandi lausn málsins í skólanum er hægt að vísa málinu til fagráðs eineltismála og/eða fá ráðgjöf í málinu á hvaða stigi sem það er. Þú getur haft samband og fengið ráðleggingar með því að senda skilaboð á þessari síðu hér eða á netfangið [email protected] og það verður hringt þig við fyrsta tækifæri. 

Nánari upplýsingar má finna hér: https://mms.is/eineltismal

Ert þú að lenda í áreiti á netinu? Hér er að finna góð ráð um hvað sé hægt að gera:

https://www.112.is/ofbeldi/samskipti-a-netinu-born-og-ungmenni

https://www.saft.is/

Úrræði:

Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum er úrræði á vegum mennta- og barnamálaráðuneytis til að aðstoða í eineltismálum í grunnskólum og framhaldsskólum. Ef skólanum tekst ekki að leysa vandann er hægt að biðja um aðstoð hjá fagráðinu. Þú getur haft samband og fengið ráðleggingar með því að senda skilaboð á þessari síðu hér eða á netfangið [email protected] og það verður hringt þig við fyrsta tækifæri.

Hjálparsími og netspjall Rauða krossins er opið allan sólarhringinn og þar er hægt að tala við fólk sem er þjálfað í að ræða við þá sem líður illa. Ekki þarf að gefa upp nafn og fullur trúnaður ríkir (nema tilkynningaskylda samkvæmt barnaverndarlögum gildi). 

112 aðstoðar í neyð.

Umboðsmaður barna vinnur að bættum hag barna. Eitt af hlutverkum embættisins er að leiðbeina um hvað lög og reglur í landinu segja um einelti.