Skólabragur

Undanfarin ár hefur sýn á eineltismál breyst þannig að áherslan er nú meira á heildarmyndina frekar en eingöngu á þolendur og gerendur. Forvarnarvinna gegn einelti virðist virka best þegar skólabragurinn er mjög góður því þar fær einelti ekki að þrífast.   

Skólabragur er sú menning og þau gildi sem einkenna hvern skóla. Það sem mótar hann eru þau gildi, reglur og áherslur sem eru við lýði. Skólabragur vísar til gæða og megineinkenna skólastarfs. Hann byggir á reynslu nemenda, foreldra og starfsfólks af skólanum og endurspeglar ríkjandi viðmið, markmið, gildi, samskipti, kennslu-, starfs-, og stjórnunarhætti. Rannsóknir sýna að eitt af einkennum árangursríks skóla er jákvæður skólabragur. Í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 er fjallað um mikilvægi jákvæðs skólabrags en einnig í aðalnámskrám leik- og framhaldsskóla.  

Foreldrar átta sig ekki alltaf á því hversu mikilvægur partur þeir eru af skólasamfélaginu og hvernig þeir hafa áhrif á skólabrag en foreldrar bera einnig ábyrgð á að stuðla að jákvæðum skólabrag. Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila í skólasamfélaginu frá 2011 segir í þriðja kafla um jákvæðan skólabrag og samskipti (6.gr.):  Í grunnskólum skal skilgreina í hverju jákvæður skólabragur felist og móta leiðir til að viðhalda honum. Starfsfólk grunnskóla, nemendur og foreldrar skulu í sameiningu leggja áherslu á að viðhalda góðum starfsanda í skólanum og jákvæðum skólabrag. Mikilvægt er að í grunnskólum sé fjallað um mál sem kunna að hafa áhrif á skólabrag, þ.m.t. mál sem koma upp utan skólatíma og í rafrænum samskiptum. Mat á skólabrag skal tengjast öðru innra mati skólans. Nánar er fjallað um skólabrag í aðalnámskrá grunnskóla.  

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á jákvæðum skólabrag og sýna þær meðal annars að einkenni skóla með jákvæðan skólabrag er að í honum er lítið um agavandamál en líðan nemenda og starfsfólks er einnig betri en í öðrum skólum.  

Hvað einkennir jákvæðan skólabrag:

  • Viðhorf til foreldra mjög jákvæð og áhersla á öflugt foreldrastarf. 
  • Gagnkvæm virðing. 
  • Starfsmenn sýna umhyggju. 
  • Hlýlegt umhverfi. 
  • Hlustað á nemendur
  • Nemendur bera á byrgð. 
  • Bekkjarfundir 
  • Samverustundir eru reglulegar. 
  • Nemendum sýnt traust. 
  • Jafningjafræðsla 
  • Öflug lífsleiknikennsla. 
  • Trú á nemendur. 
  • Sveigjanleiki 
  • Blöndun nemendahópa innan árgangs eða aldurshópa. 
  • Samstaða kennara – lausnamiðuð samvinna.
  • Skýr skilaboð – kennarar og starfsmenn eru fyrirmyndir. 

Hlutverk skólastjórnenda  

Góður skólabragur er samstarfsverkefni stjórnenda, starfsfólks, nemenda og foreldra. Skólastjórnendur bera engu að síður mikla ábyrgð og þeirra hlutverk hefur verið kannað sérstaklega. Í skólum með jákvæðan skólabrag einkennir eftirfarandi skólastjórnendur: 
  • Sýnilegir 
  • Fylgjast vel með og eru á ferli í skólanum.
  • Stýra reglulega samkomum nemenda. 
  • Halda reglulega fundi. 
  • Bregðast við aðstæðum. 

Hlutverk kennara 

Hlutverk kennara er einnig mikilvægt en þeir byggja upp góðan skólabrag með nemendum sínum bæði með því að vera góð fyrirmynd en einnig í hefðbundum lífsleiknitímum. Nokkrir þættir sem nauðsynlegt er að vinna með börnum eru: 

  • Virðing  
  • Traust 
  • Umburðarlyndi 
  • Fjölbreytni 
  • Kærleikur 
  • Gleði 
  • Jákvæðni 
  • Tillitssemi 
  • Samvinna 
  • Samskipti 
  • Ábyrgð 
  • Lýðræði 
  • Jafnrétti 

Hlutverk foreldra  

Foreldrar skipta miklu máli í skólasamfélaginu og geta haft mikil áhrif á skólabraginn. Börnin koma með það sem þau heyra heima í skólann og því mikilvægt að foreldrar sýni gott fordæmi og tali af ábyrgð um skólann og starfsfólkið. Góð samskipti heimilis og skóla geta skipt sköpun þegar kemur að menntun og líðan barnanna en einnig til að mynda góðan skólabrag. Foreldrar þurfa því að hafa eftirfarandi í huga: 

  • Leggja sig fram um að eiga góð samskipti við skólann. 
  • Vera góð fyrirmynd.  
  • Sýna skólasamfélaginu áhuga. 
  • Mæta á viðburði. 
  • Láta skólann vita ef það þarf að laga eitthvað, ekki ræða það við börnin. 
  • Vera opnir fyrir því að barnið þitt sýnir kannski ekki alltaf sömu hegðun heima og í skólanum. 
  • Eiga samtal við barnið um hvernig því líður í skólanum og hvernig það leggur sitt af mörkum til að stuðla að jákvæðum skólabrag. 
  • Ræða góð samskipti við barnið. 
  • Vandamál leysast best í samstarfi heimilis og skóla. 

Þessu til viðbótar eru það uppeldislegir þættir sem styðja við góðan skólabrag. Börn sem hafa fengið góða þjálfun í þeim gildum sem skipta hvað mestu máli í góðum skólabrag, efla braginn enn frekar. Þessi gildi nýtast ekki bara skólabragnum og líðan barna heldur fylgir þessi færni og þekking börnum út lífið.

Hlutverk barna og ungmenna 

Frá upphafi skólagöngu þarf að kenna börnum og ungmennum hvernig er viðeigandi að haga sér í skóla með góðan skólabrag. Það er því ábyrgð kennara og foreldra að kenna börnum þá þætti sem skipta hvað mestu máli. Börn sem bera virðingu fyrir samnemendum, kennurum og umhverfi sínu eru líklegri til að stuðla að góðu umhverfi og góðum skólabrag. Ekki er hægt að ætlast til þess að börnin kunni að haga sér á jákvæðan hátt í upphafi og því þarf að leggja áherslu á þessa kennslu og kenna börnum á jákvæðan hátt að vera umburðarlynd og bera virðingu.