Einelti

Þegar verið er að skoða hvort einelti er í gangi er mikilvægt að allir séu að tala um einelti á svipaðan máta. Oft fer of mikill tími í að ákveða hvort um einelti er að ræða eða ekki, í staðinn fyrir að leysa vandann.  

 Áður var litið á það þannig að einelti væri bara á milli ákveðinna einstaklinga og það þyrfti að leysa úr því á milli þeirra.  Í dag vitum við að einelti er ekki bara vandi þessara aðila sem um ræðir, heldur snýst um menninguna í hópnum. Þess vegna þarf alltaf að skoða hvað er að gerast í hópnum, hvaða hlutverki allir gegna í vandanum og vinna með það. Rannsóknir hafa sýnt að einelti hefur áhrif á alla, líka þá sem taka ekki beinan þátt. 

 

Við erum félagsverur en það þýðir að við viljum tilheyra hópi. Þar gerist það oft að hver og einn fær ákveðið hlutverk, (t.d. leiðtoginn, sá sem fylgir alltaf með eða sá sem er oft útundan o.fl.) eða stöðu (t.d. vinsælu krakkarnir, „nördarnir“ o.s.frv.). Það er samt mjög misjafnt í hvaða hlutverki eða stöðu maður er eftir hópum. Maður getur t.d. verið í góðri stöðu í íþróttafélaginu en ekki eins góðri í skólanum.  

 

Þeir sem eru óöryggir með sína stöðu bregðast stundum við með því að búa sér til nýjan hóp til að reyna að upplifa öryggi. Til dæmis með því að sameinast um að útiloka einhvern annan. Þetta hefur áhrif á alla og býr til óöruggt ástand. Aðrir sem verða varir við þetta geta þá orðið óöruggir með sína stöðu og tekið þátt til þess að reyna að tryggja sitt eigið öryggi.  

 

Vitað er um dæmi þar sem börn, sem hafa lagt aðra í einelti, skipta um skóla og finna fyrir létti og engri þörf fyrir slíkt í nýja skólanum. Einfaldlega vegna þess að í nýja skólanum upplifðu þau öryggi og þurftu ekki að búa sér til nýjan hóp til þess.  

 

Þess vegna þurfa fullorðnir alltaf að horfa á allan hópinn þegar verið er að bregðast við einelti, ekki bara þá sem standa því næst.  

 

Það er engin fljótleg lausn til við vandanum, það þarf þolinmæði og vinnu við að breyta menningunni í hópnum en samt þarf að sjálfsögðu líka að grípa strax til viðeigandi aðgerða.  

Einelti er sem sagt ekki einstaklingsvandamál heldur vandamál hópsins og allir hafa hlutverki  gegna í því.

Einelti snýst ekki um um „slæm“ börn heldur slæma menningu sem þarf að breyta og það er á ábyrgð fullorðna fólksins að gera það. 

Endilega skoðið kaflana hér að neðan:

  • Er verið að leggja mig í einelti?
  • Er ég að leggja í einelti?
  • Er einelti í kringum mig?

Er verið að leggja mig í einelti?

Er ég að leggja í einelti?

Er einelti í kringum mig?