Skólabragur

Mikilvægasti þátturinn til að koma í veg fyrir einelti er skólabragur en það er sú menning og þau gildi sem einkenna hvern skóla. Það þýðir að hvernig starfsfólk skólans, nemendur og foreldrar hugsa og koma fram mótar skólann. Þannig að ef allir eru meðvitaðir um jafnrétti og umburðarlyndi er líklegra að öllum líði vel í skólanum og að pláss sé fyrir alla.  Skólinn ber ábyrgð á því að skólabragurinn sé góður og öllum líði vel en það er engu að síður samstarfsverkefni skólans við foreldra og börn. Þannig er mikilvægt að þú sem nemandi gerir þér grein fyrir þínu hlutverki og þú hjálpir til við að viðhalda jákvæðni, gleði og kurteisi með því að koma vel fram við alla.  

Það er meira að segja í lögum og reglugerðum að vinna eigi að því að skólabragur í hverjum skóla sé jákvæður og góður. Skóli með jákvæðan skólabrag hefur minna af agavandamálum og bæði starfsfólki og nemendum líður vel. 

Það sem einkennir góðan skólabrag er meðal annars:

  • Gagnkvæm virðing.
  • Starfsmenn sýna umhyggju.
  • Hlýlegt umhverfi.
  • Hlustað á nemendur.
  • Nemendur bera á byrgð.
  • Bekkjarfundir.
  • Samverustundir eru reglulegar.
  • Nemendum sýnt traust. 
  • Jafningjafræðsla.
  • Öflug lífsleiknikennsla. 
  • Trú á nemendur. 

Hlutverk skólans 

Góður skólabragur er samstarfsverkefni stjórnenda, starfsfólks, nemenda og foreldra. Skólastjórnendur bera ábyrgð á þessu en þeir þurfa að vera sýnilegir nemendum og bregðast strax við ef eitthvað kemur upp á. Kennarar þurfa einnig að vera nemendum góð fyrirmynd með því að sýna umburðarlyndi, kurteisi og virðingu svo eitthvað sé nefnt. Þeir eiga líka að vera með öfluga lífsleiknikennslu þar sem meðal annars er fjallað um: 

  • Virðingu 
  • Traust 
  • Umburðarlyndi 
  • Fjölbreytni 
  • Kærleika 
  •  Gleði 
  • Jákvæðni 
  • Tillitssemi 
  • Samvinnu 
  • Samskipti 
  • Ábyrgð 
  • Lýðræði 
  • Jafnrétti 

Hlutverk heimilis  

Foreldrar skipta miklu máli í skólasamfélaginu og geta haft mikil áhrif á skólabraginn og þurfa þeir líka að kenna börnum sínum góð samskipti. Mikilvægt er að foreldrar hafi samband við skólann ef eitthvað kemur upp á en hlutverk skólans er að taka á slíkum málum, hvort sem það varðar námið eða líðan barna. Í öllum samskiptum er mikilvægt að tala af virðingu um náungann, sýna jákvæðni og virða jafnrétti. Þetta eru þættir sem skipta líka máli inni á heimilum enda þurfa börn að læra hvaða hegðun er viðeigandi og það er hlutverk foreldra fyrst og fremst að kenna það.