Lög og reglugerðir

Öll börn eiga rétt á því að líða vel í skóla, tómstundum og þar sem þau dvelja við nám, tómstundir og hvíld ásamt því að þau eiga rétt á vernd gegn einelti. Á Íslandi eru fjöldamörg lög og reglugerðir í gildi sem styðja við þessi réttindi barna, t.d. Stjórnarskrá Íslands, Barnasáttmálinn og Mannréttindasáttmáli Evrópu. Í lögum um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, aðalnámskrám og fl. reglugerðum sem snúa að skólastarfi er skýrt kveðið á um skyldur og ábyrgð fagfólks þegar kemur að skólabrag, forvörnum og aðgerðaáætlunum gegn einelti og annars konar ofbeldi. Hér að neðan er fjallað í grófum dráttum um hver lög og hverja reglugerð fyrir sig og að hvaða leyti viðkomandi lög/reglugerð fjalla um réttindi barna.

Stjórnarskrá Íslands

Stjórnarskráin er æðsta réttarheimildin á Íslandi og engin lög eða reglugerðir mega fara gegn ákveðum hennar. Í stjórnarskránni segir m.a. að það skuli með lögum tryggja börnum þá vernd og umönnum sem velferð þeirra krefst (3. mgr. 76. gr.), þau eigi rétt á trúfrelsi (63. og 64. gr.), það megi ekki mismuna (65. gr.), þau megi ekki pynda (68. gr.) og þau eigi rétt á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu (71. gr.). Allar þessar greinar stjórnarskrárinnar má túlka á þann veg að börn eigi rétt á því að vera laus við áreiti, ofbeldi, einelti eða aðra slæma meðferð af hendi annarra. 

Barnasáttmálinn       

Barnasáttmálinn hefur mikla þýðingu þar sem hann verndar réttindi barna sérstaklega. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur fjallað um einelti meðal barna og lagt áherslu á að skólar og aðrar stofnanir sem vinna með börn framfylgi þeim reglum sem ætlað er að vinna gegn einelti.                                                                          

Í barnasáttmálanum segir að allar ráðstafanir stjórnvalda (þar með talið skólar), skulu vera í samræmi við það sem er börnum fyrir bestu og að þau ríki sem skrifa undir sáttmálann skuldbindi sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst  (3. gr.). Aðildarríki eru einnig sammála um að í menntun barna eigi að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu, ásamt því að móta virðingu fyrir mannréttindum (29. gr.) og ef markmiðum þessum er framfylgt ætti það að leiða til þess að börn komi vel fram hvert við annað og einelti ætti þá ekki að þekkjast. Barnaréttarnefndin hefur tekið fram að skóli sem leyfir einelti eða öðru ofbeldi að viðgangast uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 29. gr. sáttmálans.

Barnasáttmálinn segir einnig:  „aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum … illri meðferð … á meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.“  Þetta er mikilvæg regla með tilliti til eineltis og vernd gegn hvers kyns ofbeldi og skv. sömu grein skulu vera virkar ráðstafanir til að veita barni nauðsynlegan stuðning, koma á forvörnum og takast á við tilfelli þar sem barn hefur sætt illri meðferð (19. gr.).

Barnasáttmálinn fjallar einnig um friðhelgi einkalífs* og vernd tjáningarfrelsis en þar kemur einnig fram að tjáningarfrelsið getur sætt takmörkunum með lögum ef það er nauðsynlegt til að virða réttindi og mannorð annarra. Líkamlegt ofbeldi er þó aldrei verndað af tjáningarfrelsi (16. gr. og 13. gr.).

Barnasáttmálinn fjallar víðtækt um réttindi barna sem snúa ekki beint að samskiptum eða einelti en má túlka í því samhengi. Börn eiga t.d. rétt til hvíldar og tómstunda, þess að stunda leiki og skemmtanir og því eiga þau ekki að þurfa að sæta því að vera útilokuð, t.d. vegna eineltis (31. gr.), eða sæta virðingarleysis vegna skoðana eða trúa, þar sem Barnasáttmálinn tekur einnig afstöðu til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar (14. gr.).

Hafa ber í huga að samkvæmt 16 gr. barnaverndarlaga er öllum skylt að upplýsa sé ástæða til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Mannréttindasáttmáli Evrópu 

Mörg ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu eiga sér samsvörun í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og Barnasáttmálans en hér verða nefnd nokkur dæmi.

Í Mannréttindasáttmálanum segir að enginn skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð (3. gr.). Gróft einelti sem felur í sér líkamlegt ofbeldi gæti hugsanlega flokkast sem slíkt en Mannréttindadómstóllinn hefur skilgreint pyndingu sem „vísvitandi ómannlega meðferð sem veldur mjög alvarlegum og grimmilegum þjáningum“ og að ómannleg meðferð feli í sér miklar líkamlegar og sálrænar þjáningar. Vanvirðandi meðferð hefur verið skilgreind sem „ill meðferð, sem ætlað er að valda einstaklingi ótta, angist og vanmætti, sem er til þess fallin að niðurlægja hann og lítillækka og brjóta niður líkamlegt og andlegt mótstöðuafl hans“.

Mannréttindasáttmálinn fjallar um rétt til friðhelgis og tjáningarfrelsi hugsana, trúfrelsi og bann við mismunun og því á hann að tryggja rétt barna til að vera ólík með ólíkar skoðanir og vera laus við að einkalíf þeirra sé upplýst*. Tjáningarfrelsi má þó skerða sé það nauðsynlegt til að virða réttindi og mannorð (8. gr., 9. gr., 10. gr., 14. gr.).

Hafa ber í huga að samkvæmt 16 gr. barnaverndarlaga er öllum skylt að upplýsa sé ástæða til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Lög um leikskóla 

Ekki er beint fjallað um einelti í lögum um leikskóla en ákvæði í lögunum hafa forvarnargildi gegn einelti, m.a. að starfshættir skuli mótast af umburðarlyndi, kærleika, jafnrétti, umhyggju, virðingu o.fl. (2. gr.). Fjallað er um skyldur starfsfólks til að rækja starf sitt af alúð, sýna kurteisi, nærgætni og lipurð í framkomu gagnvart börnum, foreldrum og samstarfsfólki (7. gr.).

Í lögunum er einnig minnst á ábyrgð foreldra varðandi hagsmuni barna sinna og þeir skulu hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla, fylgjast með skólagöngunni og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barna (9. gr.).

Lög um grunnskóla 

Í lögum um grunnskóla er skýrt kveðið á um hvernig grunnskóli skuli stuðla að góðu samstarfi við heimili svo tryggja megi almenna velferð og öryggi nemenda. (2. gr.) og þar segir m.a. að starfsfólki skóla sé skylt að rækja starf sitt af alúð, sýna kurteisi, nærgætni og lipurð í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki (12. gr).

Í 30. gr. laganna segir að öllum aðilum skólasamfélagsins beri að leggja sitt af mörkum til að stuðla að og viðhalda jákvæðum skólabrag (tengill í Skólabragur – fagfólkshluti). Skólastjórar og kennarar eiga að hafa samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Þá eiga foreldrar að hafa samráð við skólann um skólagöngu barnanna. Í sömu grein segir að grunnskólar eigi að hafa heildstæða stefnu um hvernig þeir ætli að fyribyggja líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi í skólastarfinu og hvernig brugðist skuli við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun.

Lög um framhaldsskóla 

Í lögum um framhaldsskóla segir: „allir nemendur framhaldsskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi …  Framhaldsskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna“ (33. gr.).

Í 33. gr. laganna er fjallað um skólabrag og mikilvægi hans en þar segir að allir aðilar skólasamfélagsins skuli leggja sitt af mörkum til að stuðla að og viðhalda jákvæðum skólabrag. Stjórnendum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra sem eru yngri en 18 ára. Sömuleiðis eiga foreldrar að hafa samráð við skólann um skólagöngu barnsins. Í sömu grein er fjallað um skólareglur þar sem m.a. er kveðið á um hegðun og samskipti, ásamt því sem áhersla er lögð á að framhaldsskólar hafi heildstæða stefnu um hvernig eigi að fyrirbyggja líkamlegt, andlegt og félagslegt ofbeldi í skólastarfi. Einnig skal skóli hafa áætlun um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun.

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum 

Í reglugerðinni eru skyldur og ábyrgð skólasamfélagsins útfærð nánar, meðal annars vegna eineltis.

Þar segir t.d. að starfsfólk skóla eigi ávallt að bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja öryggi, vellíðan og vinnufrið þeirra svo þeir megi njóta skólagöngu sinnar. Starfsfólk skuli sýna nærgætni og virðingu í samskiptum og stjórnendur skóla beri ábyrgð á að vinna markvisst að jákvæðum samskiptum og trausti allra í skólanum. Einnig er skýrt tekið fram að starfsfólki skóla beri að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólanum og komi slík tilvik upp skuli bregðast við þeim skv. stefnu skólans. Skólastjórnendum og kennurum beri einnig skylda til að upplýsa foreldra ef ítrekað er fundið að hegðun eða framkomu nemanda (3. gr.).

Í reglugerðinni er mikilvæg grein (7. gr.) sem lýtur að starfi gegn einelti en þar er fjallað um eftirfarandi:

  • Að allir skólar eigi að hafa heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, sem og félagslegri einangrun. Skóli á að hafa aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum.
  • Þessi áætlun á að ná til allra aðila skólasamfélagsins, starfsfólks, nemenda og foreldra en hvað foreldra varðar er markmiðið að þeir séu virkir í samstarfi við skólann í vinnu gegn einelti, séu í samstarfi við starfsfólk um úrvinnslu eineltismála, eftir atvikum með formlegum samningi milli heimilis og skóla. Vikið skal að aðilum í grenndarsamfélaginu sem starfa með börnum, þeir upplýstir um vinnu skólans gegn einelti og óskað eftir samráði við þá eftir því sem þörf krefur.
  • Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja aðgerðaáætluninni með virkum og ábyrgum hætti  en skólastjóri ber ábyrgð á að sú vinna sé samhæfð milli bekkjadeilda, námshópa og einstaklinga.
  • Skóli skal reglulega kanna eðli og umfang eineltis í skólanum, kynna þær niðurstöður og nýta sér þær til að bæta um betur.
  • Áætlun þessi er hluti af skólanámskrá og á að birta hana opinberlega. Starfsfólk sérfræðiþjónustu á að aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og úrlausn í einstaka málum ef þess þarf.
  • Foreldrar og skólar geta óskað eftir aðstoð fagráðs sem starfar á vegum mennta- og menningarálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags.

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum 

Reglugerð þessi er nánast samhljóða reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum en aðlöguð að starfi framhaldsskóla.

Þar segir t.d. að starfsfólk skóla eigi ávallt að bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja öryggi, vellíðan og vinnufrið þeirra svo þeir megi njóta skólagöngu sinnar. Starfsfólk skuli sýna nærgætni og virðingu í samskiptum og stjórnendur skóla beri ábyrgð á að vinna markvisst að jákvæðum samskiptum og trausti allra í skólanum. Einnig er skýrt tekið fram að starfsfólki skóla beri að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólanum og komi slík tilvik upp skuli bregðast við þeim skv. stefnu skólans. Skólastjórnendum og kennurum beri einnig skylda til að upplýsa foreldra ef ítrekað er fundið að hegðun eða framkomu nemanda undir 18 ára aldri (3. gr.).

Í reglugerðinni er sér grein (9. gr.) sem fjallar um starf gegn einelti en þar er segir eftirfarandi:

  • Allir framhaldsskólar eiga að hafa heildstæða stefnu um það hvernig skuli fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar eiga að hafa aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri forvarnar- og viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum.
  • Áætlunin skal ná til alls starfsfólks, nemenda og foreldra og fjalla um skyldur allra til að vinna gegn einelti með virkum hætti. Leggja skal áherslu á virðingu, tillitsemi og samkennd og að tekin sé afstaða gegn einelti. Skólastjóri ber ábyrgð á samhæfðu starfi innan skólans.
  • Skóli skal reglulega kanna eðli og umfang eineltis innan stofnunar, kynna þær niðurstöður og nýta sér þær til að bæta um betur.
  • Áætlun þessi er hluti af skólanámskrá og á að birta hana opinberlega.
  • Foreldrar, nemendur og skólar geta óskað eftir aðstoð fagráðs sem starfar á vegum mennta- og menningarálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skólans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Aðalnámskrár leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Aðalnámskrá hefur ígildi reglugerðar og í henni er nánar kveðið á um útfærslu laga og reglugerða. Orðið einelti kemur oft fram í aðalnámskrá grunnskóla og framhaldsskóla, m.a. varðandi aðgerðaráætlun, fyrirbyggjandi aðgerðir og mikilvægi jákvæðs skólabrags sem er mikilvæg forvörn fyrir einelti. Í aðalnámskrá leikskóla er einelti nefnt í tengslum við mannréttindi, að þau „verða ekki tryggð nema stuðlað sé að velferð eins og baráttu gegn hvers konar mismunun og ofbeldi, þar á meðal gegn einelti.“

Barnalög 

Á Íslandi eru sérstök lög um börn en þar segir um inntak forsjár að „forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi“ (28. gr.).

Því má segja að það sé ótvíræð krafa til foreldra að þeir geri það sem þeir geti til að vernda barn sitt frá því að lenda í einelti og bregðast við komi sú staða upp. Fagfólk þarf því að hafa í huga að þegar foreldrar leita eftir aðgerðum varðandi slíkar aðstæður eru þeir að rækja forsjárskyldur sínar.

Í sömu grein (28. gr.) er einnig minnst á að foreldrar skuli ala á siðgæði barna sinna og því er mikilvægt fyrir þá að hafa það í huga komi til þess að barn þess misstígi sig í samskiptum og leggi annað barn/börn í einelti.

Barnaverndarlög 

Í barnaverndarlögum er m.a. fjallað um réttindi barna og skyldur foreldra. Þar segir m.a. að börn eigi „rétt á vernd og umönnun.“ Þar segir einnig: „foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.” (1. gr.) Foreldrum er því skylt að bregðast við lendi barn þeirra í aðstæðum sem ógna velferð þeirra, þ.m.t. einelti og það þarf fagfólk að hafa í huga.

Í 17. gr. barnaverndarlaganna er mikilvægt ákvæði um tilkynningaskyldu almennings en þar segir m.a. að öllum sé skylt að tilkynna hafi þeir ástæðu til að ætla að barn verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Lög um umboðsmann barna 

Forsætisráðherra skipar umboðsmann barna til fimm ára í senn.

Umboðsmaður barna á að fylgjast með því að stjórnvöld, einstaklingar og aðrir aðilar taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu skal hann setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins, bregðast við með tiltækum úrræðum telji hann að áðurgreindir aðilar hafi brotið gegn réttindum, þörfum og hagsmunum barna í samfélaginu.

Æskulýðslög og íþróttalög 

Í þessum lögum er ekki fjallað sérstaklega um einelti eða viðbrögð við því en túlka má almennt orðuð markmið á þann hátt að unnið sé að vernd gegn einelti.

Í æskulýðslögum segir m.a. að hafa skuli í huga „félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda“ og að í „öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi …“  (1. gr.).

Í íþróttalögum segir að „meginmarkmið … á sviði íþróttamála skal vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði. Samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu skal taka mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnarstarf“ (2. gr.).

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur gefið út stefnuyfirlýsingu en þar er eitt af markmiðunum háttvís framkoma og leiðbeiningarbækling fyrir íþróttafélög um gerð aðgerðaáætlana gegn einelti.

Hafa ber í huga að samkvæmt 16 gr. barnaverndarlaga er öllum skylt að upplýsa sé ástæða til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.