Samskipti á netinu

Almennt um samskipti á netinu

Samskipti á netinu vefjast oft fyrir börnum.  Þau virðast ekki átta sig á að það sem við setjum á netið er komið til að vera og eiga það jafnvel til að segja hluti sem þau mundu aldrei segja augliti til auglitis. Samskipti á netinu eiga ekki að vera öðruvísi en samskipti sem við eigum augliti til auglitis.  Það er alltaf einhver manneskja á hinum endanum í samskiptum, sama hvort hún er fyrir framan þig eða bak við skjá. Það er mikilvægt að við kennum börnum að orð og aðgerðir hafa ábyrgð.  Við verðum að kenna þeim umferðarreglur internetsins og um þær hættur sem kunna að leynast þar. Hafa þarf í huga að foreldrar setja ákveðnar línur fyrir börnin sín og eru þær mjög mismunandi milli fjölskyldna. Fagaðilar verða hins vegar að hafa sömu reglur fyrir alla og það þarf að virða þau aldursmörk sem sett eru á forrit, smáforrit, leiki og fleira.

Það er því miður algengt að börn lendi í útistöðum og samskiptavanda á netinu eða samskiptamiðlum en það gerist yfirleitt í frítíma barnanna. Það þekkist því miður að fagfólk taki afstöðu gegn því að vinna með slík vandamál þegar þau gerast ekki í skólanum. Hins vegar er alveg ljóst að vandamálið skilar sér í kennslustofuna og því mikilvægt að tekið sé á vandanum þar, sem og heima fyrir. Börn þurfa leiðsögn í notkun þessara miðla og hjálp við að leysa málin.

Hér eru nokkrir punktar til að íhuga:   

  • Sýndu tölvunotkun barnanna áhuga.
  • Þegar rætt er um góð samskipti, minntu alltaf á að sama gildi um samskipti á netinu.
  • Ræddu við börnin um hvernig skynsamlegt er að nota tölvur og tækni.
  • Þú ert fyrirmynd fyrir börnin, líka í tölvunni.
  • Ræddu um öryggismál internetsins.
  • Vertu forvitin(n), kannaðu og prófaðu nýja tækni.
  • Nýttu þér valmöguleika stafrænna fjölmiðla.
  • Notaðu tæknina á skapandi hátt.
  • Mundu að tæknin er framtíð barnanna.
  • Mundu að tölvuöldin er komin til að vera.

Hvernig skal netið notað í kennslu 

Internetið býður upp á margar fjölbreyttar og skemmtilegar nýjar leiðir í kennslunni og er frábær leið til að nýta með börnum enda eru þau oft mjög áhugasöm um tæknina. Hraðinn er hins vegar mikill og samskipti barna á netinu vandmeðfarin. Ef skóli ætlar sér að nýta samskiptamiðla með börnum er mikilvægt að börnin hafi náð því aldurstakmarki sem sett er á miðilinn en einnig að skýrar reglur séu um það hverjir megi eiga samskipti sín á milli. Skólinn ber alltaf ábyrgð á börnunum á skólatíma og þarf því að fara varlega í alla slíka vinnu. Einnig má kanna hvort svipaðir miðlar séu til sem eru sérstaklega hannaðir fyrir kennslu en það er ekki óalgengt. Kennarinn er alltaf ábyrgðaraðili í allri vinnu og nauðsynlegt að hann hafi aflað sér nægilegrar þekkingar. Einnig þarf kennarinn að átta sig á því að sífellt fleiri leikir bjóða upp á samskipti milli leikmanna og oft gera foreldrar og kennarar sér ekki grein fyrir því að þarna séu samskipti að eiga sér stað.

Kennarinn er einnig fyrirmynd og hefðbundnir tölvutímar eru alls ekki eini vettvangurinn til að kenna góða hegðun og jákvæð samskipti á netinu. Í lífsleiknikennslu og allri umræðu um jákvæð samskipti, góðu gildin kurteisivinátta og virðing er alltaf kjörið að bæta við umræðuna að þessir þættir eiga jafn vel við um netið sem og hefðbundin samskipti í daglegu lífi.