Fyrsta aðstoð fyrir börn og ungmenni

Þú átt rétt á því að líða vel í skólanum og einelti er aldrei þér að kenna. Einelti er á ábyrgð fullorðinna og það er þeirra að stöðva eineltið. Það er alltaf í lagi að hafa samband og biðja um aðstoð, sama hvort þér finnst málið alvarlegt eða ekki. Ekki þegja um málið.

Talaðu við einhvern fullorðinn sem þú treystir og fáðu aðstoð. Foreldrar, systkini, afar, ömmur, frænkur, frændur, vinir foreldra og aðrir fullorðnir vita oft hvað er gott að gera og geta hjálpað manni að takast á við eineltið eða láta vita af því.

Kennarar, námsráðgjafi, deildarstjóri, skólahjúkrunarfræðingur, skólastjóri, skólaliði og annað starfsfólk skóla getur einnig aðstoðað þig ef þú ert í vanda. Talaðu við þann sem þér finnst best að treysta.

Hér má finna nánari upplýsingar um einelti, hvort um sé að ræða stríðni eða einelti, hvernig einelti lítur út og fl.

Ertu að lenda í áreiti á netinu? Ekki er óalgengt að einelti og áreiti eigi sér stað á netinu. Hér er að finna góð ráð fyrir börn og ungmenni:

Önnur úrræði:

Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum er úrræði á vegum mennta- og barnamálaráðuneytis til að aðstoða í eineltismálum í grunnskólum og framhaldsskólum. Ef skólanum tekst ekki að leysa vandann er hægt að biðja um aðstoð hjá fagráðinu. Þú getur líka haft samband og fengið ráðleggingar með því að senda skilaboð á þessari síðu hér eða á netfangið [email protected] og það verður hringt í þig við fyrsta tækifæri.

Hjálparsími og netspjall Rauða krossins er opið allan sólarhringinn og þar er hægt að tala við fólk sem er þjálfað í að ræða við þá sem líður illa. Ekki þarf að gefa upp nafn og fullur trúnaður ríkir (nema tilkynningaskylda samkvæmt barnaverndarlögum gildi). 

112 aðstoðar í neyð.

Umboðsmaður barna vinnur að bættum hag barna. Eitt af hlutverkum embættisins er að leiðbeina um hvað lög og reglur í landinu segja um einelti.