Samskipti heimilis og skóla

Samstarf heimilis og skóla er mjög stór þáttur í skólastarfinu og lykillinn að góðri líðan barna. Með því að virkja foreldra þegar upp koma agamál, samskiptavandi eða annað finnur barnið fyrir því að skóli og heimili vinnur saman sem veitir aukið aðhald. Foreldrar eru uppalendur barnanna og viðhorf og hegðun því á þeirra ábyrgð og því er það réttur þeirra að vera upplýst um þau mál sem koma upp og fá tækifæri til að leiðbeina börnum sínum.

Það að gera foreldra nemenda að bandamönnum þínum gerir ykkur kleift að vinna saman að skólagöngu nemenda. Sem er sérstaklega mikilvægt ef um er að ræða samskiptavanda eða einelti, að heimili og skóli taki höndum saman. Starfsmenn skóla bera ábyrgð á að grípa inn í og vinna með vandann á vettvangi skólans á meðan foreldrar bera ábyrgð á viðhorfum barnsins, hegðun þess og líðan.

Þegar börnin vita að foreldrar og starfsfólk skólans tala saman finnur það fyrir aðhaldi og öryggi sem getur komið í veg fyrir ýmis vandamál. Það er hins vegar algengt að foreldrar heyri bara frá skólanum þegar illa gengur og getur slíkt skapað neikvæðni og stuðlað að erfiðum samskiptum. Því er mikilvægt að vinna að góðum tengslum strax frá upphafi, svo samvinna heimilis og skóla gangi betur þegar á reynir.

Þegar samskiptavandi kemur upp er oft boðað til fundar til að fara yfir málin. Þar eru foreldrar gjarnan í minnihluta þar sem skólinn boðar oft marga að borðinu. Þetta getur virkað yfirþyrmandi fyrir foreldra og mikilvægt er að velja úr hverjir þurfa nauðsynlega að sitja fundinn. Gott er að hafa í huga að ef samskipti heimilis og skóla eru stirð, þá getur verið gott að fá óháðan aðila til að sitja fundi. Í öllum samskiptum er virðing og virk hlustun lykilatriði og í samskiptum við foreldra er það engin undantekning. Foreldrar eru stundum reiðir eða sárir enda getur staða barna þeirra verið verulega erfið. Mikilvægt er að fagfólk taki tillit til þessarar stöðu og hlusti á það sem þeir hafa að segja án þess að dæma.

Foreldrar eru ekki bundnir trúnaði í samtölum um barnið sitt og önnur börn þó það gildi um fagfólkið og þar liggur mikill munur. Þegar tilfinningarnar verða miklar hjá foreldrum þarf fagfólkið að hlusta, styðja og gera sitt allra besta til að koma málinu í viðeigandi farveg. Mikilvægt er að starfsfólk skóla hafi stjórn á tilfinningum sínum í öllum samskiptum við foreldra og muni að í samskiptum vegna nemenda eru foreldrar í foreldrahlutverkinu, með öllum þeim tilfinningum sem því fylgir en starfsfólk skóla er í hlutverki fagfólks, þar sem fagmennskan þarf að ráða ferð fremur en ógagnlegar tilfinningar sem mögulega kvikna.

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

 • Hafa reglulega samband við foreldra, líka þegar vel gengur.
 • Muna að hrósa þegar vel gengur og gera sitt besta til að finna eitthvað jákvætt sem hægt er að beina sjónum að þegar ekki gengur vel.
 • Hafa í huga að foreldrar eru talsmenn barna sinna og þekkja þau best.
 • Hafa í huga að nemendur sýna oft aðra hegðun heima en í skólanum og því getur verið erfitt fyrir foreldra að meðtaka upplýsingar frá skólanum.
 • Upplýsa foreldra sem fyrst þegar mál koma upp og halda þeim upplýstum um gang mála ef við á.
 • Huga að því hverjir sitja hvaða fundi; of margir af hálfu skólans getur virkað yfirþyrmandi fyrir foreldra.
 • Hlusta á það sem foreldrar hafa að segja og leggja sig fram um að skilja þeirra sjónarmið.
 • Hafa foreldra með í ráðum varðandi lausnir mála, upp að því marki sem mögulegt er.
 • Muna að fagfólk og foreldrar hafa sama markmið, að barninu líði vel.
 • Endið fundi um samskiptavanda með því að taka saman markmið næstu daga/vikna og bókið næsta fund.
 • Hafa í huga hver ábyrgð skólans er og hver ábyrgð foreldranna er.