Einelti

Í baráttunni gegn einelti er mikilvægt að sameiginlegur skilningur sé til staðar á því hvað einelti er. Skilgreiningin á einelti hefur oft þvælst fyrir og komið í veg fyrir að málin séu leyst. Áður fyrr var litið á einelti sem vandamál einstaklinga og að lausnin væri að vinna með þá til að leysa vandann.

Það sem við vitum í dag um einelti er að það er ekki eingöngu vandi einstakra aðila. Einelti fjallar um þá menningu sem er til staðar í viðkomandi hópi. Þess vegna verður alltaf að líta á heildina og hlutverk allra í þeirri menningu sem er til staðar. Rannsóknir hafa sýnt að einelti hefur mikil áhrif á líðan allra, líka þeirra sem standa hjá án þess að taka beinan þátt.

Einelti er ekki einstaklingsvandamál heldur vandamál heildarinnar og það hafa allir hlutverki að gegna í því. Þetta fjallar ekki um „slæm“ börn, heldur slæma menningu sem þarf að breyta og það er á ábyrgð okkar fullorðinna að gera það.

Mannskepnan er félagsvera og leitar eftir því að tilheyra hópi, þar sem tilhneiging er til að hver og einn fái ákveðið hlutverk og/eða stöðu innan hópsins. Það hlutverk eða sú staða getur verið mismunandi á milli hópa, einstaklingur sem er t.d. í bágri stöðu meðal skólafélaga getur verið með allt aðra stöðu í íþróttafélaginu sínu. 

Einstaklingar sem eru óöruggir með stöðu sína í félagsskapnum geta búið sér til félagsskap til að reyna að upplifa sig örugga, með því til dæmis að fá aðra til að sameinast um að útiloka einhvern annan. Þetta ferli hefur áhrif á alla heildina og býr til ótryggt ástand fyrir alla. Aðrir sem verða vitni að þessari útilokun geta orðið óöruggir með sína stöðu og grípa því til þess að styrkja stöðu sína með því að taka þátt í útilokuninni.

Það finnast dæmi um börn sem hafa lagt aðra í einelti, sem upplifðu létti við að skipta um hóp (skóla, íþróttafélag og fleira) þar sem þau upplifðu ekki þetta ótrygga ástand í nýja hópnum. Það var sem sagt þetta ótrygga andrúmsloft í gamla bekknum sem stuðlaði að eineltinu.

Þess vegna verðum við að horfa á heildina og ekki eingöngu einstaklingana þegar kemur að einelti. Það er ekki til nein fljótleg lausn á þessu vandamáli, við verðum að vera þolinmóð og leggja áherslu á að breyta menningunni í hópnum ásamt því taka strax á vandanum með viðeigandi aðgerðum.

Við verðum að muna að í stað þess að ætla að fara að skamma svokallaðan „geranda“ verðum við að skoða af hverju hann gerir það sem hann gerir. Þetta fjallar um greiningarvinnu á félagsskapnum. Og gleymum því ekki að fullorðnir eru líka hluti af félagsskapnum og það þarf að taka þá með inn í myndina. Er eitthvað í þeirra fari sem styður við hið ótrygga andrúmsloft?