Fagfólk - forvarnir og viðbrögð
6-15 ára

Skólinn

Á undanförnum árum hefur áhersla í forvörnum á líðan barna færst frá því að einblína á barnið sjálft yfir á heildarumhverfi þess. Að skapa umhverfi fyrir börnin þar sem allir fá að vera hluti af hópnum og þar sem rými er fyrir mismunandi áhugamál, hæfileika og skoðanir. Slíkur skólabragur er búinn til í samvinnu við foreldra og börn en skólastjórnendur eiga að leiða þessa vinnu. Þegar hafist er handa við að skilgreina skólabraginn er mikilvægt að rýna í eigin vinnubrögð og viðhorf þar sem starfsfólk skólanna eru fyrirmyndir fyrir börnin. Allir starfsmenn verða að vinna markvisst að því að skapa og viðhalda þeim gildum sem skólinn byggir á.
Velferð starfsmannanna er líka mikilvæg og þess vegna þarf umhverfið að vera jákvætt jafnt fyrir fullorðna sem börn enda helst vellíðan starfsmanna í hendur með vellíðan barnanna. Fagfólk getur stutt við og stuðlað að góðum samskiptum á milli barnanna með því að sýna þeim virðingu, umburðarlyndi og samkennd.
Nemendur þurfa að fá sömu skilaboð frá öllum starfsmönnum varðandi hegðun. Starfsmenn þurfa því að skilgreina stefnu í hegðunar og agamálum í samvinnu við stjórnendur. Allir starfsmenn verða að vinna markvisst að því að skapa og viðhalda þeim gildum sem skólinn byggir á.

Vinna að góðum skólabrag endar aldrei og því er mikilvægt að vera alltaf opin/n fyrir breytingum til hins betra. Þegar niðurstöður kannana um einelti og líðan í skólanum liggja fyrir ætti alltaf að fjalla um þær og koma með tillögur að úrbótum.

Skýr lög gilda um líðan og velferð barna í grunnskólum eins og sjá má í kaflanum um lög og reglugerðir  en þar er meðal annars fjallað um ábyrgð kennara að framfylgja aðgerðaráætlun og ábyrgð skólans að kanna umfang eineltis í skólanum. Einnig er í lögum tekið fram að hegðun utan skólatíma telst almennt ekki brot á skólareglum nema þegar um einelti eða ofbeldi er að ræða, til dæmis á leið til og frá skóla.

Nokkrar leiðir til að vinna að bættum bekkjaranda:

  • Tengslakannanir til að taka stöðuna og vinna með niðurstöðurnar.
  • Bekkjarfundir þar sem nemendur fá að ræða málin.
  • Leikir eins og leynivinaleikur.
  • Markviss lífsleiknikennsla þar sem gildi góðra samskipta eru í fyrirrúmi.
  • Markviss tenging kennarans við hvern og einn nemenda þar sem traust er byggt upp..
  • Kennari sýni nemendum gott fordæmi með framkomu sinni og fasi, tóntegund og viðmóti.

Hér má sjá atriði sem mikilvægt er að hafa í huga varðandi verkferla sem unnið er eftir.

Bekkurinn

Umsjónarkennari ber ábyrgð á þeim bekkjaranda sem er í bekknum hans. Það að setja markmið í samvinnu við bekkinn um hvernig félagsskap nemendur vilja hafa í bekknum getur verið áhrifaríkt og að rifja það upp reglulega, breyta og bæta. Einnig geta nemendur samið bekkjarreglur saman og hengt þær upp á vegg. Öll umræða um gildin sem valin hafa verið er af hinu góða og þátttaka nemenda mikilvæg.

Kennsluhættir sem ýta undir samvinnu nemenda og velferð þeirra þar sem allir fá að taka (geta tekið) þátt, hver á sinn hátt og allir verið þeir sjálfir er frábær leið til að vinna með samvinnu, umburðalyndi. Í allri umræðu um þessi góðu gildi er mikilvægt að færa þau líka yfir á hinn rafræna heim. Brýna þarf fyrir þeim að virðing, vinátta, kurteisi og umburðalyndi eiga líka við þar. Nemendur þurfa líka að læra að vera gagnrýnir á það sem fram fer á netinu og mikilvægt að umræðan um það sé tekin.

Vel skipulögð kennsla, agi og aðhald veitir börnum öryggi sem þau þurfa til að láta sér líða vel. Þess vegna þarf bekkjarstjórnun að vera góð og kennarinn að leggja sig fram við að ná góðum tökum á nemendum auk þess að mynda gott traust og gagnkvæma virðingu. Að halda góðum og jákvæðum aga í bekk er ekki bara mikilvægt fyrir góðan vinnufrið heldur líka til að tryggja góða líðan hjá öllum. Öllum líður betur þegar það er agi, bæði þeim börnum sem þurfa á rammanum að halda en líka þeim sem eru róleg að eðlisfari.

Börnin þurfa að treysta kennaranum og bera virðingu fyrir honum en það er kennarans að vinna sér inn traustið og bera virðingu fyrir börnunum. Kennari sem hlustar á börnin, ber virðingu fyrir þeim, skoðunum þeirra og tilfinningum fær það margfalt tilbaka og auðveldar það honum að takast á við erfiða hegðun nemenda eða samskiptavanda sem upp kemur.

Með góðri bekkjarstjórnun má koma í veg fyrir stríðni, einelti og neikvæð samskipti í kennslustofunni en einnig minnka líkur á því að slíkt komi fyrir á öðrum vettvangi. Komi það hins vegar upp að samskiptavandi eða einelti eigi sér stað t.d. í frímínútum, matsal eða rafrænt þá hefur kennari með góða bekkjarstjórnun mun betri möguleika á að taka á málinu á árangursríkan hátt. Viðhorf kennara til samskipta- og eineltisvanda er lykilatriði hvað varðar fjölda mála og hvernig gengur að taka á þeim.

Velferð nemenda er samvinnuverkefni heimilis og skóla. Þess vegna þarf kennari að upplýsa foreldra og stjórnendur ef upp kemur vandi eða vanlíðan hjá börnum.