Foreldrar - Hvert get ég leitað?
Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar

Það er misjafnt hversu mikil tengsl eru á milli grunnskóla og frístundaheimilis/félagsmiðstöðvar þegar kemur að rekstri þeirra og skipuriti og þar af leiðandi ólíkt á milli grunnskóla og sveitarfélaga hvert skal leita. Það er þó töluvert samstarf á milli og lendi barnið þitt í samskiptavanda á frístundaheimilinu eða í félagsmiðstöðinni er mikilvægt að skoða hvernig vandinn birtist í skólanum og stuðla að því að unnið sé heildstætt með hann.
Almennt starfsfólk fylgir börnunum eftir í leik og starfi frístundaheimilisins/félagsmiðstöðvarinnar.
Forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður stýra starfi frístundaheimilis/félagsmiðstöðvar og bera ábyrgð á því starfi sem þar fer fram.


Mikilvægt er að upplýsa aðstoðarforstöðumann eða forstöðumann teljir þú barnið þitt vera í samskiptavanda eða lagt í einelti.
Það er misjafnt hver er næsti yfirmaður forstöðumanns. Stundum ber að leita til skólastjóra, stundum deildarstjóra frístundamiðstöðvar og stundum er ákveðin frístundanefnd á vegum sveitarfélagsins.

Teljir þú þig ekki fá viðunandi aðstoð frá forstöðumanni leggjum við til að þú aflir upplýsinga um hver er næsti yfirmaður hans og leitir þangað.

Teljir þú þig ekki fá viðunandi lausn við samskiptavanda barns þíns í frístunda- og tómstundastarfi sem er hluti af starfsemi grunnskóla er hægt að vísa málinu til fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum.