Samstarf foreldra og fagfólks - Hlutverk innan skólanna - Framhaldsskólar
Nokkuð er mismunandi milli skóla hverjir sinna hvaða verkefnum og þá sérstaklega milli skóla með bekkjarkerfi og áfangakerfi.
Umsjónarkennari heldur utan um mætingu og er ráðgefandi fyrir nemendur. Fylgist með námsframvindu nemendahópsins og aðstoðar nemendur við að finna stuðning þar sem þarf.
Kennslustjórar eru oft margir og hafa mismunandi svið sem þeir bera ábyrgð á, nefna má sérúrræði, erlenda nemendur og ákveðnar deildir innan skólans. Þeir bera því ábyrgð á sínu sviði og leiða faglegt starf þar.
Áfangastjóri heldur utan um námsframvindu, námsmat og námslok. Í sumum skólum hefur áfangastjóri umsjón með fjarvistum.
Forvarnarfulltrúi sér um stefnumótun í forvarnarmálum skólans, heldur utan um fræðslu og kannanir.
Skólameistari ber ábyrgð á daglegum rekstri og er æðsti stjórnandi skólans. Honum ber að sjá til þess að farið sé eftir lögum og reglum og að fylgst sé með því að nemendur stundi nám sitt og njóti þeirra réttinda sem lög gera ráð fyrir.
Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara, heldur oft utan um agamál og önnur málefni nemenda. Hann heldur einnig gjarnan utan um kennslumál og námsframboð.
Námsráðgjafi er trúnaðarmaður nemenda og hann er bundinn þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem hann fær um málefni þeirra, nema tilkynningaskylda samkvæmt barnaverndarlögum segi til um annað. Námsráðgjafi getur verið mikilvægur hlekkur í vinnu með samskiptavanda þar sem hlutverk hans er meðal annars að standa vörð um velferð nemenda og veita ráðgjöf og stuðning. Að auki vinnur námsráðgjafi oft með nemendum með kvíða, streitu og reiðistjórnun ásamt öðrum vandamálum. Námsráðgjafi vinnur eftir siðareglum náms- og starfsráðgjafa.
Skólaráð er skólameistara til ráðgjafar um stjórnun skólans. Það veitir umsagnir um ákveðin mál og fjallar meðal annars um starfsáætlun skólans, skólareglur og fleira. Skólaráð fjallar einnig um málefni einstakra nemenda sem eru þá trúnaðarmál.