Foreldrar - hvað get ég gert? 16 +
Á þessum árum eru ungmenni oftast orðin nokkuð góð í samskiptum og reynsla komin á félagatengsl og vináttu. Það breytist samt margt á þessum árum og oftar en ekki fara vinir sitt í hverja áttina þegar kemur að framhaldsskóla. Þess vegna er þetta oft tímabil sem ungmenni þurfa að byrja upp á nýtt, kynnast nýju fólki og eignast vini. Fyrir marga er þetta erfitt tímabil en aðra vel þegið þar sem nýtt upphaf hentar kannski vel.
Foreldrar upplifa oft á þessum aldri að börnin séu að vaxa frá þeim (og hefst það tímabil jafnvel fyrr) en ekki má gleyma því að börn þurfa oft aldrei meira á foreldrum sínum að halda og einmitt þarna. Breytingar eru miklar, væntingar meiri og ákvarðanir stórar. Þess vegna skiptir miklu máli að sleppa tökunum ekki of hratt, heldur færa börnunum aukna ábyrgð smátt og smátt eftir því sem þroski þeirra og aldur segir til um.
Ef foreldrar hafa unnið að góðu trausti ætti það að skila sér á þessu tímabili. Samskipti í ástamálum, félagslíf sem tekur umtalsverðum breytingum á þessu stigi og pressa frá jafningjum getur reynt á ungmenni sem þurfa þá á góðri ráðgjöf að halda. Foreldrum reynist oft erfitt að það séu komnir nýir vinir sem þeir þekkja ekki og hitta jafnvel aldrei eða sjaldan og þar reynir einmitt á að treysta barni sínu til að taka skynsamlegar ákvarðanir og hafa búið til þann farveg að barnið leiti til manns þegar á reynir. En mundu að það er aldrei of seint að byggja upp traust. Með góðum vilja, og jafnvel utanaðkomandi aðstoð ef þess er þörf, má byggja upp góð tengsl sem grunn að traustum samskiptum.
Nokkrir góðir punktar:
- Vertu í góðum samskiptum við skólann.
- Vertu í góðum samskiptum við vini barnsins.
- Vertu í góðum samskiptum við foreldra vina.
- Sýndu áhugamálum barnsins áhuga.
- Tryggðu rólegar stundir þar sem hægt er að ræða saman þar sem þú opnar á umræðu ef eitthvað skyldi brenna á barninu.
- Berðu virðingu fyrir tilfinningum barnsins.
- Hlustaðu á barnið
- Gættu að traustinu, það er auðvelt að glata því.
- Leyfðu ekki eftirlitslaus partý.
- Bjóddu vini velkomna inn á heimilið, bæði nýja og gamla.
- Mundu að tímarnir breytast og mennirnir með.