Félagsleg vellíðan
Félagsleg vellíðan er meðal annars það að vera elskaður, öruggur, viðurkenndur og finna að maður sé einhvers virði, bæði í eigin augum og annarra. Þess vegna eru vinir og vinskapur mikilvægur alveg frá leikskólaaldri. En einnig gott samband við fullorðna.
Öll börn vilja að eftir þeim sé tekið, hlustað á þau, þau fái athygli og þeim sé hrósað. Það hefur sýnt sig að þau börn sem eiga góða vini og gott samband við fullorðna eru líklegri til að líða vel. Þau börn sem eru ekki eins sterk félagslega og eiga ekki gott samband við fullorðna, eiga oft erfiðara með félagsleg samskipti. Þau vita ekki alltaf hvernig þau eiga að nálgast jafnaldra og grípa því oft í neikvæða hegðun eða verða aðgerðarlaus og taka ekki frumkvæði. Þannig aukast líkurnar á að þau lendi utanveltu og verði jafnvel einangruð. Það er því mikilvægt að styðja vel við þau börn, aðstoða þau við að finna gagnlegri leiðir til að eiga samskipti við jafnaldra og virkja jákvæða eiginleika þeirra.
Við vitum líka að það eru tengsl milli náms og líðanar. Börn sem ekki líður vel eru oft á varðbergi og tilbúin að verja sig og hafa þess vegna ekki hugrekki til að reyna eitthvað nýtt. Þau geta verið of varkár, kvíðin, hávær eða félagslega truflandi og lokuð fyrir nýrri reynslu. Þau þurfa því aðstoð við að byggja upp þann kjark og hugarfar sem er nauðsynlegur til að læra og tileinka sér eitthvað nýtt, hvort sem er í námi eða samskiptum.
Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga varðandi félagslega vellíðan:
- Öll börn þurfa að upplifa að það sé „pláss“ fyrir þau, sama hvar þau eru og hvernig þau eru. Eitt af hlutverkum foreldra og fagfólks er að tryggja félagslega vellíðan barna.
- Félagsleg vellíðan á að vera samstarfsverkefni skóla og heimila. Ábyrgð foreldra og fagfólks er ólík en hvoru tveggja mjög mikilvæg.
- Þegar börn þurfa að læra nýja færni í skólanum og hafa hugrekki til að prufa eitthvað nýtt, verður þeim að líða vel. Það er því mikilvægt að tryggja börnum öruggan og heilbrigðan vinnustað þar sem þau geta dafnað – líkamlega, andlega og félagslega. Vellíðan er forsenda þess að læra eitthvað.
- Vellíðan er grunnurinn fyrir því að eiga í góðum samskiptum og félagsleg vellíðan getur þar með verið öflug forvörn gegn einelti.
- Við megum aldrei gleyma því að fullorðnir bera alltaf ábyrgðina í samskiptum við börn. Við verðum að taka ábyrgð á aðstæðum, vera leiðbeinendur og hjálpa barninu að rata út úr erfiðum aðstæðum ef þau geta það ekki ekki sjálf.
- Góður bekkjarbragur styður við félagslega vellíðan og er mikilvægur hluti af skólastarfinu. Það þurfa allir að leggja sitt af mörkum til að viðhalda góðum bekkjarbrag: fagfólk, foreldrar og nemendur.
- Engu barni á að þurfa að líða illa. Sé það staðreyndin ber fagfólki skylda til að bregðast við á viðeigandi máta.