Fagfólk - forvarnir og viðbrögð
0-5 ára
Á undanförnum árum hefur áhersla í forvörnum á líðan barna færst frá því að einblína á barnið sjálft yfir á heildarumhverfi barnsins. Að skapa umhverfi fyrir börnin þar sem allir fá tækifæri til að vera hluti af hópnum og þar sem rými er fyrir mismunandi áhugamál, hæfileika og skoðanir. Slíkur skólabragur er búinn til í samvinnu við foreldra og börn en skólastjórnendur eiga að leiða þessa vinnu. Þegar hafist er handa við að skilgreina skólabraginn er mikilvægt að rýna í eigin vinnubrögð og viðhorf þar sem starfsfólk skólanna er fyrirmyndir fyrir börnin. Allir starfsmenn verða að vinna markvisst að því að skapa og viðhalda þeim gildum sem skólinn byggir á. Á þessum aldri eru gildi á borð við vináttu, virðingu, kurteisi, hjálpsemi, gleði og umhyggju afar hentug og góður grunnur að jákvæðum skólabrag. Velferð starfsmannanna er líka mikilvæg og þess vegna þarf umhverfið að vera jákvætt jafnt fyrir fullorðna sem börn enda helst vellíðan starfsmanna í hendur með vellíðan barnanna. Fagfólk getur stutt við og stuðlað að góðum samskiptum á milli barnanna með því að sýna þeim virðingu, umburðarlyndi og sýna samkennd.
Samskiptavandi og einelti getur því miður komið upp í stórum barnahópi og mjög mikilvægt að fagfólk hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni til að tryggja velferð barnanna með því að bregðast rétt við. Til að tryggja rétt og samræmd vinnubrögð þarf að vera til aðgerðaáætlun um viðbrögð. Til að tryggja hámarks árangur þurfa starfsmenn að þekkja áætlunina og vita nákvæmlega hvernig vinna á með vandann en einnig þurfa foreldrar að vera upplýstir um ferlið. Í kaflanum um lög og reglugerðir má lesa um ákvæði um einelti og skyldur starfsmanna.
Hér má sjá atriði sem mikilvægt er að hafa í huga varðandi verkferla sem unnið er eftir.