Fagfólk - forvarnir og viðbrögð
16+
Á undanförnum árum hefur áhersla í forvörnum á líðan barna færst frá því að einblína á barnið sjálft yfir á heildarumhverfi barnsins. Að skapa umhverfi fyrir börnin þar sem allir fá að vera hluti af hópnum og þar sem rými er fyrir mismunandi áhugamál, hæfileika og skoðanir. Slíkur skólabragur er búinn til í samvinnu við foreldra og börn en skólastjórnendur eiga að leiða þessa vinnu. Þegar hafist er handa við að skilgreina skólabraginn er mikilvægt að rýna í eigin vinnubrögð og viðhorf þar sem starfsfólk skólanna eru fyrirmyndir fyrir börnin. Allir starfsmenn verða að vinna markvisst að því að skapa og viðhalda þeim gildum sem skólinn byggir á.
Velferð starfsmanna er líka mikilvæg og þess vegna þarf umhverfið að vera jákvætt jafnt fyrir fullorðna sem börn enda helst vellíðan starfsmanna í hendur með vellíðan barnanna. Fagfólk getur stutt við og stuðlað að góðum samskiptum á milli barnanna með því að sýna þeim virðingu, umburðarlyndi og samkennd.
Nemendur þurfa að fá sömu skilaboð frá öllum starfsmönnum varðandi hegðun. Starfsmenn þurfa því að skilgreina stefnu í hegðunar- og agamálum í samvinnu við stjórnendur. Allir starfsmenn verða að vinna markvisst að því að skapa og viðhalda þeim gildum sem skólinn byggir á. Mikilvægt er að búa til umhverfi þar sem allir upplifa sig sem hluta af hópnum og finna að það er pláss fyrir fjölbreytni.
Vinna að góðum skólabrag endar aldrei og mikilvægt að vera alltaf opin/n fyrir breytingum til hins betra. Þegar niðurstöður kannanna um einelti og líðan í skólanum liggja fyrir ætti alltaf að fjalla um þær og koma með tillögur að úrbótum.
Vel skipulögð kennsla, agi og aðhald veitir börnum öryggi sem þau þurfa til að líða vel. Þess vegna þarf bekkjarstjórnun að vera góð og kennarinn að leggja sig fram við að ná góðum tökum á nemendum auk þess að mynda gott traust og gagnkvæma virðingu. Að halda góðum og jákvæðum aga í bekk er ekki bara mikilvægt fyrir góðan vinnufrið heldur líka til að tryggja góða líðan hjá öllum. Það líður öllum betur þegar agi er til staðar, bæði þeim börnum sem þurfa á rammanum að halda en líka þeim sem eru róleg að eðlisfari.
Börnin þurfa að treysta kennaranum og bera virðingu fyrir honum en það er kennarans að vinna sér inn traustið og bera virðingu fyrir börnunum. Kennari sem hlustar á börnin, ber virðingu fyrir þeim, skoðunum þeirra og tilfinningum fær það margfalt til baka og auðveldar það honum að takast á við erfiða hegðun nemenda eða samskiptavanda sem upp kemur.
Mikilvægt er að aðgerðaáætlun sé til staðar og allir starfsmenn skólans þurfa að þekkja verkferlana; best er ef þeir taka þátt að útbúa áætlunina. Slík áætlun ætti að vera aðgengileg nemendum og foreldrum á heimasíðu skólans.
Kennsla þarf að vera skipulögð þannig að hún ýti undir velferð nemenda, jafnrétti og gefi öllum tækifæri til að taka þátt á sinn hátt. Nauðsynlegt er að hafa hæfni og þekkingu til að tryggja velferð nemenda og vita hvert á að leita ef upp kemur vandi. Upplýsa þarf bæði foreldra og stjórnendur ef slíkt kemur upp.
Hér má sjá atriði sem mikilvægt er að hafa í huga varðandi verkferla sem unnið er eftir.