Þú átt rétt á því að líða vel í skólanum og einelti er aldrei þér að kenna. Einelti er á ábyrgð fullorðinna og það er þeirra að stöðva eineltið. Það er alltaf í lagi að hafa samband og biðja um aðstoð, sama hvort þér finnst málið alvarlegt eða ekki. Ekki þegja um málið.
Talaðu við einhvern fullorðinn sem þú treystir og fáðu aðstoð. Foreldrar, systkini, afar, ömmur, frænkur, frændur, vinir foreldra og aðrir fullorðnir vita oft hvað er gott að gera og geta hjálpað manni að takast á við eineltið eða láta vita af því.
Kennarar, námsráðgjafi, deildarstjóri, skólahjúkrunarfræðingur, skólastjóri, skólaliði og annað starfsfólk skóla getur einnig aðstoðað þig ef þú ert í vanda. Talaðu við þann sem þér finnst best að treysta.