Foreldrar - hvað get ég gert? 6-15 ára
Fyrirmyndir
Á þessum árum fer að reyna á samskipta- og félagshæfni barna og enn þá er mjög mikilvægt fyrir þau að hafa góðar fyrirmyndir sem spegla góð og jákvæð samskipti. Með því að tala af virðingu um fólkið í kring, skólann, kennara og nemendur er lagður góður grunnur að kennslu í samskiptum. Ef börn heyra neikvæða umfjöllum um fólk eru þau líklegri en ella til að spegla þá hegðun sjálf. Í lífsleiknitímum í grunnskólum er fjallað um góð gildi í lífinu og börnum kennd hugtök eins og vinátta, virðing, kurteisi, umburðarlyndi og þess háttar. Þessi gildi skipta miklu máli en ekki er nóg að fjalla um þau í skólanum, börn þurfa að ná að tileinka sér þessi gildi, sjá þau virka og fá frekari skilning. Það er í verkahring foreldra að halda umræðunni gangandi, nýta hvert tækifæri til að ræða málin og benda á þessi gildi sem eru börnum svo dýrmæt út í lífið.
Traust
Til að geta rætt við börnin um það sem er í gangi í þeirra lífi hverju sinni og vandamálin sem upp koma þarf að vera gagnkvæmt traust. Þetta traust kemur ekki af sjálfu sér og þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um að byggja upp þetta traust frá upphafi. Ef barnið treystir foreldrum sínum er það líklegt til að deila vandamálum sínum með þeim og biðja um hjálp. Á þessum aldri eru vandamálin allt frá því að vera mjög lítil yfir í alvarleg mál sem getur skipt sköpum að vel sé tekið á. Með stærri börnum verða vandamálin að líkindum stærri. Það getur verið mjög erfitt að ætla að byrja að byggja upp traust á unglingsárum.
Gæðastundir
Gæðastundir með börnum eru frábær leið til að byggja upp traust, þjálfa samskiptin og búa til góðar minningar. Þessar stundir þurfa ekki að vera flóknar. Spilastundir, gönguferðir og bíómyndakvöld er frábær vettvangur þar sem mikill þroski á sér stað í samveru barna og foreldra. Það er líka frábær leið til að tengjast börnum með því að kynnast þeirra áhugamálum. Í dag eru tölvur og tækni stór hluti af lífi barna og foreldrarnir ekki alltaf inni í því sem þar gerist. Að setjast niður með barninu og láta það sýna sér leiki, forrit eða myndbönd sem er áhugamál þeirra er ekki bara fróðlegt og mikilvægt fyrir foreldra heldur gefur líka barninu skýr skilaboð um að foreldrið hafi áhuga á því sem það er að gera. Foreldrar sinna því mikilvæga hlutverki að kenna og leiðbeina. Þegar sest er niður með tölvuleik eða annað snúast hlutverkin við, foreldrið kann ekki leikinn, spyr, lærir og gerir mistök. Þetta er dýrmætt fyrir börn að sjá, við erum öll byrjendur í einhverju og við lærum af mistökum okkar.
Punktar:
- Vertu góð fyrirmynd fyrir barnið þitt.
- Hlustaðu á barnið þitt.
- Sýndu barninu áhuga.
- Sýndu áhugamálum barnsins áhuga.
- Kynntu þér það sem barnið er að gera s.s. tölvur, snjalltæki og fleira.
- Talaðu við barnið, spyrðu spurninga um daginn og vini þeirra.
- Leiktu við barnið.
- Þekktu vini barnsins.
- Þekktu foreldra vini barnsins.
- Myndaðu traust.
- Búðu til hefðir sem þið eigið saman eins og bíókvöld, spilastund eða gönguferðir.
- Bjóddu vini barnsins velkomna í heimsókn.
- Ekki takmarka fjölda barna inn á heimilið (ef það þarf er best að færa leikinn út svo allir geti verið með).
- Spjallaðu við þau börn sem koma í heimsókn.
- Passaðu vel upp á að bjóða öllum í afmæli og velja ekki úr, kynntu þér reglur skólans hvað þetta varðar.
- Vertu á staðnum í afmælum og partýjum.
- Vertu í góðum samskiptum við skólann.
- Upplýstu skólann ef vandi kemur upp.
Tengsl við aðra foreldra
Að eiga góð samskipti við alla þá sem að barninu koma skiptir máli. Þar eru kennarar og þjálfarar mjög mikilvægir en þeir einstaklingar sjá barnið í öðrum aðstæðum en foreldrar og geta því oft gefið góðar upplýsingar sem koma foreldrum að gagni. Góð tengsl við foreldra jafnaldra skiptir líka miklu máli sem og vinina sjálfa. Það eru ekki öll heimili eins og mismunandi reglur og gildi eru á hverju heimili fyrir sig. Þess vegna er mikilvægt að vita hvar barnið er og í hvers konar umhverfi. Ef upp koma árekstrar á milli barna er besta leiðin til að leysa málið oft í gegnum foreldrana sem leiða þá börnin saman og búa til öruggt umhverfi til að sættast og læra af mistökum.
Allir með
Sumir foreldrar hafa brugðið á það ráð að takmarka fjölda barna sem koma má með heim til að leika hverju sinni. Reglur og rammi eru af hinu góða en það þarf alltaf að hafa í huga hvaða skilaboð reglurnar senda. Þessi regla setur börn oft í klípu þar sem þá þarf að fara að velja úr hverjir mega koma með heim. Þetta getur komið sér afar illa fyrir samskipti og líðan barna. Ef aðstæður eru þannig að ekki er hægt að taka á móti mörgum börnum er betra að hafa þá regluna þannig að ef of margir eru saman komnir þá þarf að leika úti. Þannig þarf ekki að velja á milli og ekki hætta á að einhver verði sendur heim. Sama þarf að hafa í huga með afmæli barna. Fátt finnst börnum skemmtilegra en að halda upp á afmælið sitt en fyrir suma eru afmæli mjög erfið. Skólar hafa oft þá reglu að bjóða verði öllum í bekknum (eða öllum af sama kyni) en ekki velja úr. Þessi regla er góð og það er mjög mikilvægt að foreldrar virði slíkar reglur og gæti sín vel að vera enn og aftur góð fyrirmynd og taka ekki þátt í því að skilja börn útundan.
Viðeigandi stuðningur
Komi upp sú staða að börn séu einmana þurfa þau hvatningu og stuðning til að tengja sig félagslega á ný. Mikilvægt er að skoða hver vandinn er og leysa úr honum með barninu. Stundum þarf utanaðkomandi aðstoð fagaðila til að aðstoða með einhver vandamál en stundum bara stuðning við að koma sér aftur af stað. Þá getur verið sniðugt að bjóða krökkum heim eða að foreldrar tali sig saman og skipuleggi eitthvað skemmtilegt. Hafa skal þó í huga að tímarnir breytast í þessu sem og öðru. Samskipti í dag eru með allt öðrum hætti en þau voru þegar foreldrarnir voru ungir. Í dag fara samskipti að stórum hluta fram í gengum tæknina sem þarf að vera vakandi fyrir. Það er hins vegar ekki alslæmt og börn eru kannski ekki að leika eftir skóla en eru þó í miklum samskiptum við vini sína og ekki einmana.
Samskipti heimilis og skóla
Skólinn er vettvangur þar sem vandamál í samskiptum koma oft upp. Þegar það gerist er mikilvægt að vinna með skólanum í lausnamiðaðri vinnu. Mikilvægt er að muna að börn haga sér oft öðruvísi í skólanum heldur en heima og til að geta stutt við barnið í þeirri hegðun sem það sýnir þarf að taka mark á því sem skólinn upplifir. Stundum er neikvæð hegðun ákall á aðstoð og þess vegna mikilvægt að velta allri hegðun fyrir sér. Góð samskipti við skólann skipta miklu máli. Sumir foreldrar eiga neikvæða upplifun frá sinni skólagöngu en þeir þurfa að vera mjög meðvitaðir um að yfirfæra ekki sína reynslu yfir á barnið. Komi eitthvað upp á í samskiptum utan skólans þarf líka að hafa í huga að það skilar sér inn í skólann á endanum. Þess vegna þarf að upplýsa skólann um það sem er í gangi og best að hafa það í samráði við börnin eftir því sem þroski þeirra leyfir.