Það er mikilvægt að vera meðvitaður um samsetningu á hópnum sínum og stöðu hvers og eins innan hans. Einelti getur verið mjög falið og meirihluti þess fer fram undir yfirborðinu þar sem fullorðnir sjá ekki til. Ýmsar vísbendingar geta gefið til kynna að einelti þrífist í hópnum en mikilvægt er að bíða ekki eftir að þær vísbendingar komi í ljós heldur vera stöðugt með vakandi auga og fylgjast með því hvort örli á neikvæðri menningu. Þannig er hægt að grípa inn í snemma í ferlinu ef ekki náðist að fyrirbyggja vandann með forvörnum.
Ef nemandi trúir þér fyrir því að hann upplifi einelti, hvort sem hann verður sjálfur fyrir því, verður vitni að því eða stuðlar að því með einum eða öðrum hætti, er mikilvægt að hlusta með opnum huga á viðkomandi og grípa inn í eftir þörfum. Í þessum kafla er farið yfir ýmis atriði sem gott er að hafa í huga þegar verið er að skoða hvort einelti er til staðar.