Foreldrar - Hvert get ég leitað?
Framhaldsskóli

Mismunandi er á milli skóla hvaða starfsmenn sjá um líðan nemenda og hvert starfsheiti þeirra er. Hér fyrir neðan eru fleiri starfsheiti sem mögulega hafa með slík mál að gera.

Umsjónarkennari heldur utan um mætingu og er ráðgefandi fyrir nemendur, t.d. hvert á að leita innan skólans.
Mikilvægt er að upplýsa umsjónarkennara teljir þú barnið þitt vera í samskiptavanda eða lagt í einelti.

Námsráðgjafi er trúnaðarmaður nemenda og hann er bundinn þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem hann fær um málefni nemenda, nema tilkynningaskylda samkvæmt barnaverndarlögum segi til um annað. Námsráðgjafi getur verið mikilvægur hlekkur í vinnu í samskiptavanda þar sem hlutverk hans er meðal annars að standa vörð um velferð nemenda og veita ráðgjöf og stuðning.

Skólameistari ber ábyrgð á daglegum rekstri og er æðsti stjórnandi skólans. Honum ber að sjá til þess að farið sé eftir lögum og reglum og að fylgst sé með því að nemendur stundi nám sitt og njóti þeirra réttinda sem lög gera ráð fyrir. 

Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara, heldur oft utan um agamál og önnur málefni nemenda.
Teljir þú þig ekki fá viðunandi aðstoð frá umsjónarkennara er hægt að leita til deildarstjóra.

Skólaráð er skólameistara til ráðgjafar um stjórnun skólans. Það veitir umsagnir um ákveðin mál og fjallar meðal annars um starfsáætlun skólans, skólareglur og fleira. Skólaráð fjallar einnig um málefni einstakra nemenda sem eru þá trúnaðarmál.

Teljir þú þig ekki fá viðunandi lausn við samskiptavanda barns þíns í skólanum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir er hægt að vísa málinu til fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum.

Forvarnarfulltrúi sér um stefnumótun í forvarnarmálum skólans, heldur utan um fræðslu og kannanir.

Kennslustjórar eru oft margir og hafa mismunandi svið sem þeir bera ábyrgð á eins og sérúrræði, erlenda nemendur og ákveðnar deildir innan skólans. Þeir bera því ábyrgð á sínu sviði og leiða faglegt starf þar.

Áfangastjóri heldur utan um námsframvindu, námsmat og námslok. Í sumum skólum hefur áfangastjóri umsjón með fjarvistum.