Fagráð eineltismála í grunnskólum

Mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti þann 10. mars 2012 verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltismála í samræmi við reglugerð nr. 1040/2012 um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum.
Endurskoðaðar verklagsreglur voru síðan staðfestar af ráðherra 17. maí 2016 og birtar í Stjórnartíðindum 31. maí 2016.

Foreldrar og aðrir aðilar skólasamfélagsins, svo sem nemendur, starfsfólk og stjórnendur skóla, auk annarra sem starfa með börnum í skóla- frístunda- eða tómstundarstarfi, geta óskað eftir aðkomu fagráðs ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn, innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðs vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitarfélags.

Fagráðið hefur einkum tvíþætt hlutverk við meðferð mála, sem því berast. Í fyrsta lagi verður ráðið stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem meðal annars getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum eða upplýsingagjöf. Í öðru lagi skal ráðið leitast við að ná fullnægjandi úrlausn í eineltismálum, sé þess nokkur kostur, og gefa út ráðgefandi álit í máli á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga er ráðinu berast í tilteknu máli. Ef fagráðið telur að ekki liggi fyrir nægilega greinargóðar upplýsingar skal það afla þeirra, annaðhvort með formlegum hætti eða með viðtölum við málsaðila.

Skipað er í ráðið til þriggja ára í senn.